Miklar síldargöngur sem minna á síldarárin

13.07.2017 - 12:44
Mynd með færslu
 Mynd: Síldarvinnslan
Miklar síldargöngur norður af landinu þykja minna á ástandið eins og það var best á síldarárunum á sjöunda áratugnum. Sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun segir að búast megi við góðri síldarvertíð seinna í sumar. Norsk-íslenski síldarstofninn sé þó ekki á uppleið í heild sinni.

Síld norsk/íslenska síldarstofnsins er nú mun fyrr á ferðinni við landið en undanfarin ár. Þá sýndu mælingar í vor að meira er af síld norður af landinu en áður.

Mikið af síld og hún komin vestar en síðustu ár

Guðmundur J. Óskarsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, staðfesti þetta í viðtali á Morgunvaktinni á Rás1 í morgun. „Það er allavega upplifunin sem við fengum í rannsóknum okkar í maí fyrir austan land. Hún var komin vestar og í miklu meira magni innan landhelginnar heldur en í sama túr undanfarin ár.“    

Minnir á síldarævintýrið

Guðmundur segir alltaf sveiflur í göngu síldarinnar milli ára, en núna hafi hún væntanlega verið fyrr til að hrygna og því leitað á þetta svæði eftir æti svo snemma. Mikið af síld hefur fundist í árlegum makrílleiðangri rannsóknarskipsins Árna Friðrikssonar, sem nú er við rannsóknir á þessum slóðum. Þá hafa sjómenn séð vaðandi síld norður af landinu og þykir mörgum þetta minna á gullaldarár síldarævintýrsins mikla.

Norsk-íslenski síldarstofninn ekki að stækka  

En þrátt fyrir þessar miklu göngur núna segir Guðmundur að norsk-íslenski síldarstofninn fari minnkandi og stór árgangur sé ekki í augsýn eins og er. „Það er búin að vera mjög léleg nýliðun, má segja, frá því við fengum síðasta stóra árganginn 2004,“ segir Guðmundur. „Þessir árgangar sem eru að koma eftir það, halda ekkert uppi mikilli veiði.“

Gott útlit fyrir komandi síldarvertíð  

En Guðmundur segir að norsk-íslenski síldarstofninn sé nýttur á skynsamlegan hátt og veiðihlutfallið mjög lágt. „Síldin er bara í miklu magni fyrir norðan land og ég geri ráð fyrir að hún sé líka í töluverðu magni fyrir austan. Þannig að útlitið fyrir vertíðina er bara mjög gott,“ segir hann.

 

Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV