Miklar hækkanir en óttast ekki fasteignabólu

25.08.2016 - 09:04
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Kári Gylfason
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 12,4% síðustu 12 mánuði, samkvæmt hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans. Fasteignaverð hefur hækkað hratt síðustu mánuði um 2,2%, bæði í júní og júlí. Bankinn telur þó ekki ástæða til að hafa áhyggjur af því að fasteignabóla sé komin í gang með sama hætti og fyrir hrun.

Á tólf mánaða tímabili hafa íbúðir í fjölbýli hækkað um 13,6% og sérbýli hafa hækkað um 9,3%. Hækkunin frá áramótum nemur 8,3%. Þetta eru meiri hækkanir en bankinn hafði spáð fyrir um áður.

Þótt verð á sérbýli hafi hækkað minna en á fjölbýli síðustu misseri, þá virðist það vera að breytast. Á sex mánaða tímabili hafa sérbýli og fjölbýli hækkað jafn mikið eða um 7,7%. Landsbankinn telur að skortur á íbúðum í fjölbýli hafi ýtt undir eftirspurn eftir sérbýli og það hafi ýtt undir hærra verð.

Árin 2004 til 2006 var bóla á fasteignamarkaði. Kaupmáttur jókst um 1-2% á árunum 2004 til 2005 á meðan fasteignaverð hækkaði um 13% árið 2004 og um 35% árið 2005. Landsbankinn bendir á að á þeim árum hafi fasteignaverð hækkað verulega umfram kaupmátt og og aðrar tengdar stærðir. Þar hafi því fasteignabóla myndast.

Bankinn segir hins vegar að síðustu misseri hafi kaupmáttur og hækkun húsnæðisverðs fylgst betur að. 2014 hækkaði fasteignaverð um 8,5% á meðan kaupmáttur hækkaði um 3,7%. Í fyrra hækkaði fasteignaverð um 8,4% og kaupmátturinn um 5,5%.

„Niðurstaðan er því sú að það er, enn sem komið er, ekki ástæða til þess að hafa áhyggjur af því að fasteignabóla sé komin í gang með sama hætti og var á árunum 2004-2006,“ segir í Hagsjá Landsbankans.

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV