Mikill viðbúnaður vegna Bíladaga

16.06.2017 - 17:46
Mynd með færslu
Græjukeppni á Bíladögum  Mynd: RÚV  -  Björgvin Kolbeinsson
Bíladagar standa nú sem hæst á Akureyri og er umtalsverður viðbúnaður í bænum þess vegna. Bæjarstjórinn segir alla verða að leggjast á eitt, sýna tillitssemi og virða rétt íbúa til öryggis og næðis.

Lögreglan á Akureyri segir rólegt á Bíladögum og allt hafi farið vel fram hingað til. Mikil umferð sé til Akureyrar og hún hafi gengið vel. Lögreglan hafi verið á tveimur bílum við eftirlit úti á þjóðvegum í allan dag og 6-8 hafi verið stöðvaðir vegna hraðaksturs.

„Viljum við biðja ykkur ökumenn góðir að sýna tillitssemi, varúð og virða rétt íbúa og ferðafólks innan sem utan bæjarmarka til að hafa næturró,“ segir á Facebooksíðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra.

Lögreglan er í samstarfi við Aflið, samtök um heimilis- og kynferðisofbeldi, Akureyrarstofu, Bílaklúbb Akureyrar, framkvæmdamiðstöð Akureyrarbæjar og slökkvilið, um að framkvæmd og eftirlit á Bíladögum verði sem best. Fulltrúar Aflsins verða sýnilegir á stærstu viðburðum helgarinnar og lögreglumenn á vakt, bæði á merktum og ómerktum bílum. Búið er að koma upp hraðahindrunum víða á Akureyri til að hindra spól og óvarlegan akstur.

Í tilkynningu frá Akureyrarbæ leggur Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri, áherslu á að allt fari vel fram. Eftir að allir viðburðir hafi verið færðir upp á akstursíþróttasvæði Bílaklúbbs Akureyrar, hafi skapast meiri sátt í bænum um Bíladaga. „Ég er jákvæður gagnvart því að halda hátíð sem þessa innan bæjarmarkanna, en ekki nema það sé í fullri sátt við bæjarbúa,“ segir Eiríkur Björn. „Það verða allir að leggjast á eitt, sýna tillitssemi og virða rétt íbúa til öryggis og næðis."

 

 

Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV