Mikill samhugur eftir flóðbylgju á Grænlandi

19.06.2017 - 09:30
Mynd með færslu
Frá Nuugatsiaq eftir að flóðbylgja skall á þorpinu.  Mynd: Skjáskot úr myndbandi DR
Mikill samhugur ríkir á Grænlandi eftir að flóðbylgja reið yfir bæinn Nuugaatsiaq og olli gífurlegri eyðileggingu.

Í gær gáfu íbúar Nuuk þeim sem misstu heimili sitt í hamförunum svo mikið af fötum, skóm og leikföngum að ekki er þörf á frekari gjöfum. Enn vantar þó sjálfboðaliða til að flokka gjafirnar og pakka þeim.

Rauði krossinn á Grænlandi aðstoðar við að skipuleggja hjálparstarfið og hefur fengið boð um hjálp frá Rauða krossinum á Íslandi, í Danmörku og einkaaðilum á Grænlandi. Grænlandsbanki hefur komið upp skrifstofu svo fólk geti millifært peninga til þeirra sem verst urðu úti. Þá hafa fyrirtæki heitið þeim fjárstuðningi sem á þurfa að halda eftir flóðbylgjuna.

Fjögurra er enn saknað eftir að flóðbylgja gekk á land í kjölfar jarðskjálfta við Grænland. Fólkið var allt í sama húsi í þorpinu Nuugaatsiaq, þar sem skaðinn varð mestur. Níu slösuðust, þar af tveir alvarlega. Ellefu hús eru ónýt, þar á meðal skóli og matvörubúð þorpsins. Íbúum í bæjunum Saattut, Ukkusissat, Niaqornat og Qaarsut er bent á að vera á varðbergi.

Íbúar Illorsuit voru allir fluttir með þyrlu um borð í danska varðskipið Vædderen, sem er við eftirlitsstörf við Grænland. Þeir eru enn um borð. 

Peter Voss, sérfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Danmerkur og Grænlands, segir í samtali við Grænlenska ríkisútvarpið að mælar þeirra hafi sýnt litla skjálfta á svæðinu í gærkvöld. Tilgáta er um að berghlaup hafi komið flóðbylgjunni af stað. Stór hluti af fjalli gæti hafa fallið í fjörðinn og valdið flóðbylgju, að hans sögn.