Mikil uppbygging við Goðafoss

15.07.2017 - 09:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Ágúst Ólafsson
Mikil uppbygging er nú á aðstöðu fyrir ferðamenn við Goðafoss. Þegar hafa verið samþykktar framkvæmdir fyrir hátt í 100 milljónir króna, en mikilvægt þykir að bregðast við ágangi við fossinn og bæta þar öryggi.

Goðafoss er mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn og lengi verið horft til uppbyggingar á svæðinu. Á síðasta ári hófust framkvæmdir við austanverðan fossinn. Þar var byggður nýr útsýnispallur og lagðir að honum malbikaðir göngustígar frá nýju bílastæði. Nú er verið að leggja lokahönd á þær framkvæmdir.

Bæta aðgengi, tryggja öryggi og vernda náttúruna

Og nú eru hafnar framkvæmdir við útsýnispalla vestan við fossinn. Og þar eru áform um miklar framkvæmdir. „Já, já. Við erum í rauninni að byrja fyrir einhverri alvöru hérna fyrir vestan,“ segir Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri Þingeyjarsveitar. „Og við ætlum líka að fara í að byggja upp bílastæði hér að vestan og að leggja göngustíga. Markmiðið með þessum framkvæmdum er í rauninni bara að bregðast við þessum fjölda ferðamanna sem hingað koma og bæta aðgengi, tryggja öryggi og vernda náttúruna.“

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Ágúst Ólafsson
Nýhafnar eru framkvæmdir við útsýnispalla vestan við Goðafoss

Búið að samþykkja framkvæmdir fyrir 100 milljónir

Og þetta er kostnaðarsamt. Til þessa hefur Þingeyjarsveit fengið úthlutað áttatíu milljónum króna úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og lagt tuttugu prósent þar á móti. „Eins og staðan er núna þá er þetta komið í kringum hundrað milljónir. En við erum ekki búin að framkvæmda fyrir hundrað milljónir, en það er í rauninni búið að samþykkja framkvæmdir fyrir slíkt,“ segir Dagbjört.

Öll þjónusta byggð upp á sama stað

Upphaflega var gert ráð fyrir að byggt yrði sérstakt þjónustuhús með salernum við vestanverðan Goðafoss. Nú segir Dagbjört að fallið hafi  verið fallið frá því. „Þjónustan er fyrst og fremst austanmegin og þar eru fyrirhugaðar ýmsar hugmyndir um frekari þjónustu. Þar eru salerni og þeim var fjölgað á síðasta ári og þjónustuaðilinn rekur þau með stuðningi frá sveitarfélaginu. Þannig að það eru ýmis teikn á lofti þar,“ segir hún.