„Mikil sorg í hjarta hjá starfsfólkinu“

11.05.2017 - 18:08
„Þetta eru mjög sorgleg tíðindi fyrir okkur Skagmenn og er það vægt til orða tekið,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, um ákvörðun HB Granda um að flytja botnfiskvinnslu sína frá Akranesi til Reykjavíkur. Hann segir að með þessu sé hundrað ára sögu fiskvinnslu á Akranesi lokið. Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, segir að þetta hafi verið erfið ákvörðun en fyrir hafi legið að aðstaða væri fyrir alla vinnsluna í Reykjavík en ekki á Akranesi.

Vilhjálmur Birgisson segir viðræður Akraneskaupstaðar og HB Granda ekki hafa skilað miklu. „Eina sem þetta skilar er að fyrirtækið bindur vonir til þess að geta boðið öllum starfsmönnum starf. Eftir mínum upplýsingum og þessar samræður sem við áttum við forstjóra HB Granda áðan er stór hluti af þessum störfum í Reykjavík. Það er einfaldlega þannig að þegar maður ræðir við fólkið eru margar konur með börn á leikskóla og í skóla. Þetta verður bara gríðarlega erfitt. Maður finnur að það er mikil sorg í hjarta hjá starfsfólkinu.“

Vilhjálmur segir mikla óvissu uppi og vinnu framundan. Hann segist eiga gríðarlega erfitt með að kyngja þessari niðurstöðu. „Það er alltaf eitthvað hægt að gera. Menn sem hafa tímabundinn umráðarétt yfir sjávarauðlindinni hafa samfélagslega ábyrgð gagnvart því fólki sem hefur starfað hjá því í tugi ára. Þeir hafa líka samfélagslega ábyrgð gagnvart sveitarfélögunum. Það er eitthvað sem stjórnvöld verða, í mínum huga, að skoða hvort við getum horft upp á það eina ferðina enn að aflaheimildir, með þessum hætti sogist svona á milli, sogist suður til Reykjavíkur, og að hér sé fólk skilið eftir í mikilli óvissu og sveitarfélagið einnig.“

Erfið ákvörðun

„Viðbrögðin voru eins og við mátti búast, depurð,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri Granda, um móttökurnar sem hann fékk meðal starfsfólks HB Granda á Akranesi þegar tilkynnt var um flutning botnfiskvinnslunnar og uppsagnir. „Þetta er erfið ákvörðun en hún liggur nokkuð beint við í okkar augum í dag. Við munum gera allt okkar til að fólk haldi vinnu og munum bjóða því önnur störf,“ segir Vilhjálmur. „Það eru vissulega sambærileg störf en vinnustaðurinn í Reykjavík að stórum hluta til.“ Hann segir að farið verði yfir atvinnumál fólksins og reynt að finna vinnu fyrir alla.

„Byggðasjónarmið hafa mikla og stóra merkingu í okkar huga og við teljum okkur vera mjög samfélagslega ábyrga. Við höfum lagt í miklar fjárfestingar á Vopnafirði sem er mjög viðkvæmt bæjarfélag. Við teljum okkur vera í aðeins annarri stöðu á Akranesi.“ Hann segir það lengi hafa legið fyrir að það væri óhagkvæmt að reka fiskvinnsluna bæði á Akranesi og í Reykjavík. Reykjavík hafi orðið fyrir valinu því þar sé aðstaða ólíkt því sem er á Akranesi.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV