Mikil mannekla í byggingarstarfsemi

18.05.2017 - 12:37
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Rúmlega 90% fyrirtækja í byggingarstarfsemi áttu erfitt með að manna störf í febrúar. Það er mesti skortur á mannafli sem mælst hefur í atvinnugrein frá því Gallup fór að kanna slíkt hjá stærstu fyrirtækjum landsins. Þetta kemur fram í Peningamálum Seðlabankans sem birtust í gær. Þar segir að manneklu hafi verið mætt að nokkru, með því að flytja inn vinnuafl. Erlendir starfsmenn í byggingastarfsemi eru nú meira en tvisvar sinnum fleiri en 2014. 

 

Þá voru þeir um 11% af vinnuafli í greininni en voru orðnir 20% í fyrra. Færri fyrirtæki ferðaþjónustu vantar starfsfólk og fleiri sögðust vilja fækka starfsfólki en í síðustu könnun. Erlendum starfsmönnum hefur fjölgað mikið í ferðaþjónustu, en líka segir að aukinn vilji sé til að fækka starfsfólki, það gæti bent til þess að  að gengishækkun síðasta árs hafi valdið minni eftirspurn erlendra ferðamanna. 

Heildarvinnustundum fjölgaði í fyrra en meðalvinnuvikan styttist og gerði það allt árið. Niðurstöður könnunar meðal fyrirtækja eru sagðar benda til þess að sum þeirra hafi ákveðið að draga úr dýrri yfirvinnu eftir kostnaðarsama kjarasamninga.