Mikið álag á björgunarsveitum

13.08.2017 - 12:40
Mynd með færslu
 Mynd: Landsbjörg
Um fimmtíu björgunarsveitarmenn tóku í gær þátt í leit að manni á Heklu, sem fannst síðar um kvöldið, heill á húfi. Óvenjumörg alvarleg útköll voru hjá björgunarsveitunum um verslunarmannahelgina og talsvert hefur verið um stór útköll í sumar.

Til að mynda tók á annað hundrað manna þátt í leit að manni sem féll í Gullfoss í síðasta mánuði. Fimmtíu manns leituðu ferðamanna sem fundust við Emstruskála í byrjun ágúst. Og björgunarsveitafólk veitti aðstoð þegar nórósýking kom upp á Úlfsljótsvatni á fimmtudagskvöld, svo örfá dæmi séu nefnd. 

„Það er búið að vera gríðarlega mikið álag á björgunarsveitum á Suðurlandi í sumar í tengslum við þann mikla fólksfjölda sem hefur verið hér á Suðurlandi. Kannski sérstaklega í minni sveitum hefur álagið verið mikið á fáa einstaklinga,“ segir Tryggvi Hjörtur Oddsson, formaður Björgunarfélags Árborgar.

Hann segir að horft hafi verið til forvarna til að fækka útköllum auk þess sem hálendisvaktin hafi tekið mikinn kúf af útköllum björgunarsveitanna, sérstaklega í Landmannalaugum og Skaftafelli.

Fólk verður að hverfa frá vinnu til að fara í útköll. „Þetta er kannski ekki spennandi staða fyrir alla vinnuveitendur að vera með fólk í vinnu sem þarf að fara úr vinnu, ef þess er kostur, oft í viku eða oft í mánuði,“ segir Tryggvi Hjörtur. „Mikið af okkar starfi er á kvöldin og um helgar en svo koma þessir dagar þar sem eru að koma eitt, jafnvel tvö útköll á dag, þar sem fólk er að fara úr vinnu. Það er ekki draumur hvers vinnuveitanda en vinnuveitendur eru okkur mjög hliðhollir og við erum mjög þakklát fyrir það.“

Tryggvi Hjörtur segir að kostnaðurinn sé umtalsverður, helst í búnaði og tækjum. Þeim kostnaði standi björgunarsveitir straum af með fjárframlögum frá ríki og almenningi.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV