RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Mesta áhorf á kvennalandsleik frá upphafi

Mynd með færslu
 Mynd: UEFA  -  Twitter
Áhugi Íslendinga á kvennalandsliðinu sínu í knattspyrnu er mikill. Það er í það minnsta vel hægt að fullyrða miðað sjónvarpsáhorf á fyrsta leik Íslands á Evrópumótinu í Hollandi, þar sem Ísland tapaði á grátlegan hátt, 1-0 fyrir Frakklandi í gærkvöld.

Bráðabirgðatölur á rafrænum mælingum Gallup á sjónvarpsáhorfi á leikinn í gærkvöld sýna 40% meðaláhorf á hverja mínútu leiksins. Uppsafnað áhorf (þeir sem horfðu í a.m.k. fimm mínútu samfleytt) var 54% og 93% þeirra sem horfðu á sjónvarp á meðan leiknum stóð voru með stillt á útsendingu RÚV frá leiknum.

Mikill munur á áhorfi frá EM 2013

Þetta er mesta áhorf sem mælst hefur á sjónvarpsútsendingu frá kvennalandsleik, frá því rafrænar mælingar hófust. Það er í raun afar hæpið að einhver kvennakappleikur hafi nokkurn tímann fengið meira sjónvarpsáhorf á Íslandi en leikur Íslands og Frakklands í gærkvöld.

Til samanburðar, þá fékk leikur Íslands og Þýskalands mesta áhorfið á EM kvenna í fótbolta árið 2013. Þá mældist meðaláhorfið 25% og uppsafnað áhorf var 47%.

Áhorf á upphafsleik EM í Hollandi var líka gott. Meðaláhorf á leik Noregs og Hollands var 9% og uppsafnað áhorf 19% í samanburði við upphafsleik EM 2013 þar sem Ítalía og Finnland áttust við. Sá leikur fékk 2% meðaláhorf og 6% uppsafnað.

19.07.2017 kl.13:57
Mynd með færslu
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson
íþróttafréttamaður
Birt undir: Í umræðunni, Íþróttir, EM kvenna 2017, Fótbolti