Meirihluti segir að álag í vinnu sé of mikið

12.08.2017 - 14:20
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson  -  RÚV
Tveir af hverjum þremur félagsmönnum aðildarfélaga BHM telja álag í starfi vera of mikið, samkvæmt nýrri könnun Maskínu sem gerð var í maí og júní. Þar voru félagar í aðildarfélögum BHM spurðir út í álag og hækkun lífeyristökualdurs.

Þriðjungur sagði álag í starfi vera hæfilegt en tæp tvö prósent töldu álag í starfi vera of lítið. 22 prósent þeirra sem svöruðu sögðu álag aukast mikið þegar samstarfsmenn væru frá vinnu vegna veikinda og 46 prósent sögðu álag aukast nokkuð í veikindum. Tæplega þriðjungur sagði veikindi engu breyta um álag í vinnu. 

Einnig var könnuð afstaða fólk til þess að hækka lífeyristökualdur úr 67 árum í 70 á næstu 24 árum. Rúmlega helmingur er andvígur breytingunni en fjórðungur mjög hlynntur og fimmtungur í meðallagi hlynntur henni. Andstaða við hækkun lífeyrisaldurs á 24 ára tímabili eykst með hækkandi aldri, þar til komið er yfir sextugt, þá dregur úr andstöðu við slíka langtímabreytingu. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV