Meiri samþjöppun gæti skaðað leigjendur

28.03.2017 - 17:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aukin samþjöppun sérhæfðra leigufélaga gæti leitt til minnkandi samkeppni á húsaleigumarkaði og orðið leigjendum til tjóns, að mati Samkeppniseftirlitsins. Þetta kemur fram í umfjöllun Samkeppniseftirlitsins um samruna Almenna leigufélagsins og BK eigna. Hann einn og sér þykir ekki hafa mikil áhrif á markaði. En hröð og mikil samþjöppun á leigumarkaði vekur athygli, segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.

„Við teljum fulla ástæðu til þess, jafnvel þótt þetta sé ekki komið á það stig að Samkeppniseftirlitið þurfi eða geti gripið inn í, að vekja á þessu athygli því þetta er þróun sem við höfum ekki séð áður,“ segir Páll Gunnar. „Við erum að segja þarna að frekari samþjöppun mun að líkindum kalla á ítarlegri rannsóknir af okkar hálfu.“ Það fari þó eftir aðstæðum hverju sinni.

„Við erum að segja með þessu að við ætlum að fylgjast vel með þessu," segir Páll Gunnar. Ástæða þykir til að hafa auga með aukinni samþjöppun. Bæði af hálfu Samkeppniseftirlitsins og stjórnvalda. „Það er auðvitað ástæða til þess þegar svona breytingar verða að þau stjórnvöld séu líka að fylgjast með þessu og velti því fyrir sér hvort þessi þróun sé heppileg eða ekki. Og hvort að það sé ástæða til einhvers konar aðgerða af þeirra hálfu en við erum ekki að leggja neitt slíkt til á þessu stigi.“

Stór hluti í eigu leigufélaga

Samkeppniseftirlitið áætlar að 17 af 84 þúsund íbúðum á höfuðborgarsvæðinu séu í útleigu og þar af séu um fjögur þúsund íbúðir aðeins fyrir ákveðna þjóðfélagshópa. Því standi eftir að þrettán þúsund íbúðir séu til útleigu á höfuðborgarsvæðinu. Þar af séu tvö þúsund í eigu leigufélaga. Það sé þó ekki tæmandi tala og þegar allt sé tekið með geti 40 prósent leiguíbúða verið í eigu leigufélaganna. Það fari þó eftir skilgreiningum.

Samþjöppun er mun meiri á húsaleigumarkaði á Suðurnesjum, að stórum hluta vegna mikillar húsnæðisuppbyggingar fyrir hrun sem lauk með gjaldþrotum. Þær húseignir komust í eigu leigufélaga eftir að bankarnir tóku þær til sín. Nú er talið að 2.000 af 2.500 leiguíbúðum á Suðurnesjum séu í eigu leigufélaga.