Meiri olíunotkun en fyrir bankahrun

02.05.2017 - 19:17
Planes are seen at John F. Kennedy Airport in New York, Tuesday, May 4, 2010.  (AP Photo/Seth Wenig)
 Mynd: ASSOCIATED PRESS  -  AP
Nýjar losunartölur sýna að heildarolíunotkun hér á landi er orðin mun meiri en fyrir hrun. Mestu munar um aukna flugumferð til og frá landinu. Íslendingar verða að gera miklu betur ef þeir ætla að standa við Parísarsáttmálann, segir Ágústa S Loftsdóttir, sérfræðingur hjá Orkustofnun.

Ríki heims halda sérstakt losunarbókhald sem skilað er til Sameinuðu þjóðanna árlega. Samkvæmt nýjustu tölum fyrir Ísland, sem var skilað nú í apríl, heldur útblástur gróðurhúsalofttegunda áfram að aukast. Losun hér á landi er mest frá samgöngum. Ágústa segir að olíunotkun hefur aukist og er nú meiri en fyrir hrun.
 
„Eftir hrun þá datt heildarnotkunin niður en við erum komin aftur á sama stað og gott betur heldur en við vorum fyrir hrun.“

Heildarolíunotkun hefur vaxið með auknum mannfjölda og hagvexti. Í hruninu minnkaði hún verulega og var árið 2007 829 kílótonn. Hún minnkaði síðan ár frá ári og var minnst árið 2012, 667 kílótonn. Þá jókst hún aftur og var í fyrra 869 kílótonn. 

Með fjölgun ferðamanna hafa flugsamgöngur aukist og um leið losun gróðurhúsalofttegunda frá þeim.  

Flugvélar eyða mestri olíu

Um aldamótin 2000 notuðu fiskiskip hér á landi mest af olíu, 227 kílótonn. Bílar næstmest eða 190 kílótonn og flugvélar eyddu minnst, 138 kílótonn. Árið 2016 hafði þetta snúist við. Flugvélar eyddu mest eða 298 kílótonn, bílar næstmest, 282 kílótonnum og fiskiskip eyddu minnst, 135 kílótonnum.

Dregið hefur úr olíunotkun skipa vegna bættrar fiskveiðistjórnunar og tækniframfara, skipin eru stærri, færri og nýtnari. Sama hefur gerst í bílasamgöngum.    

„Þegar uppgangurinn var hér á undan hruninu þá var eins og hver einasti maður og amma þeirra færi og keypti sér bensínjeppa þannig að þá jókst olíunotkun einkabílanna mjög mikið og mjög hratt en eftir hrunið hefur dregið úr notkuninni hjá þeim.“

Tækniframfarir hafa líka orðið í flugi. „Menn eru kannski líka íhaldssamari í fluginu og tæknibreytingar og tækninýjungar koma inn hægar.“

Ekki góð staða

Samkvæmt Parísarsamkomulaginu eiga Ísland, Noregur og Evrópusambandið í sameiningu að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% frá 1990 til 2030.  

Hvernig standa Íslendingar gagnvart samningnum í ljósi þessarar aukningar?
„Hún er ekki góð, við erum ekki að fara að ná þessum markmiðum okkar nema með töluverðum aðgerðum. Til þess að ná nýjasta markmiðinu okkar þá þyrftum við að gera miklu meira en við erum að gera nú þegar, t.d. til þess að bílarnir myndu ná þessum samdrætti þá þyrftum við að vera allavegana með 60% hlutfall af endurnýjanlegri orku á bíla árið 2030.“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV