„Megum ekki láta Mývatn eyðileggjast“

18.06.2017 - 20:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjármálaráðherra segir til skoðunar í ríkisstjórn hversu mikla fjármuni ríkið geti lagt að mörkum í nýtt skólphreinsikerfi við Mývatn. Þó sé alveg ljóst að heimamenn við Mývatn þurfi að borga hluta kostnaðarins. En ekki megi láta Mývatn eyðileggjast.

Að kröfu Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, hafa Skútustaðahreppur og fimmtán fyrirtæki í Mývatnssveit, skilað fimm ára áætlun um úrbætur í fráveitumálum. Í áætluninni er skýrt tekið fram að ekki verði ráðist í slíkar framkvæmdir nema til komi fjármagni frá ríkinu.

Allir meðvitaðir um alvarleika málsins

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps hefur undanfarið átt í viðræðum við fjármálaráðherra og umhverfisráðherra um aðkomu ríkisins, auk þess sem þetta hefur verið rætt í ríkisstjórn. Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, segir að þar séu allir meðvitaðir um alvarleika málsins. „Auðvitað eru skólpmál fyrst og fremst málefni einstakra sveitarfélaga. En Mývatn er auðvitað sérstakt vegna þess að við erum með þess einstöku náttúru sem þar er. Það eru sérlög sem gilda um Mývatn þannig að við þurfum að skoða það mál alveg sérstaklega vel.“

Fjármunir settir í vöktun Mývatns í sumar

Hann segir að umhverfisráðherra hafi nú sett fjármuni í að vakta Mývatn í sumar og það sé nauðsynlegt til að skilja og fá úr því skorið hvað nákvæmlega veldur ástandinu í vatninu. „Við megum ekki láta þessa náttúruperlu eyðileggjast, það er alveg ljóst,“ segir Benedikt.

Til skoðunar hvort ríkið geti brúað bilið

Aðgerðir í fráveitumálum eru taldar kosta Skútustaðahrepp fimm til sjöhundruð milljónir króna og fyrirtækin hundruð milljóna þar að auki. „Ég held að það sé nú alveg ljóst að heimamenn munu þurfa, bæði einstaklingar og fyrirtæki, að borga hluta af því,“ segir Benedikt. „En það er þá verið að skoða það hvort að það væri þarna eitthvað bil sem að ríkið gæti brúað.“