Mega framselja Dotcom til Bandaríkjanna

20.02.2017 - 06:44
epa05513894 (FILE) A file photograph shows German-Finnish Internet entrepreneur Kim Dotcom (C, back) looking on during a hearing at the Auckland District Court, in Auckland, New Zealand, 08 October 2015. Internet entrepreneur Kim Dotcom's appeal of
 Mynd: EPA
Ný-sjálensk yfirvöld mega framselja tölvuþrjótinn Kim Dotcom til Bandaríkjanna samkvæmt úrskurði dómstóls þar í landi. Verjendur hans segja málinu þó hvergi nærri lokið og ætla að áfrýja úrskurðinum til áfrýjunardómstóls.

Dómari við hæstarétt í Nýja-Sjálandi segir næg sönnunargögn vera í máli Dotcoms til þess að framselja hann. Hann, ásamt þremur öðrum, eru grunaðir um að hafa hagnast um meira en 175 milljónir Bandaríkjadala með stolnum hugverkum á netinu, jafnvirði 19 milljarða króna, og eigendur höfundarréttarins hafi orðið af yfir 500 milljónum dala vegna þeirra. Sjálfur neitar Dotcom sök og segir bandarísk yfirvöld vera að hefna sín á honum fyrir hönd kvikmyndavera í Hollywood.

Dotcom átti vefsíðuna Megaupload og segir hana hafa verið löglega skráarskiptasíðu. Hann hafi eftir fremsta megni reynt að koma í veg fyrir að höfundarréttarvarið efni færi þangað inn án leyfis. Hins vegar hafi notendur verið um 50 milljónir og því ómögulegt fyrir eigendur að fylgjast með allri umferð þeirra um síðuna.

Hans bíða áratugir í fangelsi verði hann fundinn sekur um tölvuglæpina í Bandaríkjunum. 
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV