Með samviskubit yfir að búa ekki á Íslandi

10.05.2017 - 11:58
epa04870224 The Icelandic singer Bjoerk perfoms at the Citadel Music Festival in Berlin, Germany, 02 Agust 2015.  EPA/BRITTA PEDERSEN
 Mynd: EPA/Britta Pedersen
Björk Guðmundsdóttir segir í viðtali við Pitchfork.com að hún sé með samviskubit yfir að búa ekki á Íslandi allt árið. „Ég ætti að vera þar, nota grænu orkuna og rækta eigið grænmeti. Það er eitthvað sem við ættum öll að gera,“ segir Björk í viðtalinu. Hún viðurkennir jafnframt að hafa verið í rusli í margar vikur eftir að Donald Trump var kosinn forseti Bandaríkjanna, ekki síst vegna stefnu hans í loftslagsmálum.

Í viðtalinu segist Björk hafa glataði trúnni á að stjórnvöld geti látið til sín taka á sviði umhverfismála. „Við verðum að gera þetta sjálf. Ég skora á menn eins og Bill Gates að hreinsa sjóinn. Þeir eiga peninginn og tæknina til þess.“

Loftlagsmálin hafa verið Björk hugleikin síðustu ár en fyrir loftlagsráðstefnuna í París hvatti hún þjóðarleiðtoga til að taka höndum saman og bjarga plánetunni.  Henni finnst kjör Donalds Trump í Hvíta húsið þó hafa sett strik í reikninginn en Trump hefur efasemdir um loftlagsbreytingarnar. „Ég var niðurbrotin í margar vikur, sérstaklega þegar kemur að stefnu hans í þessum málaflokki.“

Björk hvetur einnig fólk til að standa upp frá samfélagsmiðlum, aftengja sig netinu og ná aftur tengslum við náttúruna. „Þú ert kannski á Facebook í marga klukkutíma og eftir það líður þér eins og þú hafir étið þrjá hamborgara. Þú veist að þetta er rusl.“

Björk kveðst alltaf ráðleggja vinum sínum að fara í göngutúr í klukkutíma og athuga þá hvernig þeim líður. „Ég held að okkur sé ætlað að vera utandyra. Ég er alin upp á Íslandi og þá skipti engu máli hvernig veðrið var, við vorum alltaf úti. Fólk á að hafa ofan af fyrir sjálfu sér. Gera eitthvað.“

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV