May „býr í öðru sólkerfi“ segir Juncker

01.05.2017 - 18:32
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands tekur á móti Jean Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í Lundúnum 26. apríl.
heresa May, forsætisráðherra Bretlands tekur á móti Jean Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í Lundúnum 26. apríl.  Mynd: AP
Jean Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins segir að Theresa May, forsætisráðherra Bretlands geri sér óraunhæfar væntingar um framgang viðræðna ESB og Bretlands um útgöngu Breta úr sambandinu. „Hún lifir í öðru sólkerfi,“ mun hann hafa sagt í samtali við Angelu Merkel Þýskalandskanslara, eftir að hann hitti May í Lundúnum í síðustu viku.

Nótum úr þessu samtali Junckers og Merkels var lekið til þýska dagblaðsins Frankfurter Allgemeine sem birti frétt um málið í gær. Orð Junckers eru þar sögð hafa orðið til þess að Merkel breytti ræðu sem hún hélt daginn eftir í þýska þinginu og sagði meðal annars að „sumir“ Bretar gerðu sér óraunhæfar væntingar um viðræðurnar. Juncker á einnig að hafa sagt við May þegar þau kvöddust í Lundúnum að eftir fundinn hefði hann mun meiri efasemdir um velgengni viðræðnanna. 

Sögusagnir frá Brussel

May hefur gert lítið úr þessum fréttum og kallað þessar frásagnir sögusagnir frá Brussel, að því er fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins. Í viðtali á BBC sagði hún að þessi ummæli Junckers, og ræða Merkels sýndi fram á að viðræðurnar ættu eftir að verða erfiðar. 

ESB ekki golfklúbbur

Þessa dagana snýst deilan fyrst og fremst um hvernig viðræðurnar eigi að ganga fyrir sig. Evrópusambandið vill að fyrst verði gengið frá útgönguskilyrðum Breta, áður en farið verður að tala um fríverslunarsamning.. Þar á meðal vill ESB ræða hvort og hversu mikið Bretar eigi að greiða til Evrópusambandsins fyrir þann tíma sem Bretland á eftir að vera innan sambandsins. Sú upphæð gæti numið um 60 milljörðum evra. Bresk stjórnvöld vilja ræða allt þetta samhliða, og virðast hafa kröfum um útgöngugjald. Um þetta Juncker mun hafa sagt við May að Evrópusambandið væri ekki eins og golfklúbbur sem meðlimir gætu sagt sig úr: útganga væri frekar eins og skilnaður hjóna þar sem báðir þyrftu að gangast undir ákveðin skilyrði og skuldbindingar.

Kosningabaráttan flækir málið

Kosningabaráttan sem nú stendur yfir í Bretlandi er síðan ekki til að einfalda málið. Theresa May boðaði til kosninga 8. júní, ekki síst til þess að fá sterkara umboð almennings til að semja um Brexit. Öll merki um veikleika, raunveruleg eða ímynduð, eru þess vegna notuð af pólitískum andstæðum hennar í baráttunni. Breskir fjölmiðlar hafa fjallað ítarlega um málið í dag. Dagblaðið Independent hefur eftir fulltrúum Verkamannaflokksins að fundur þeirra May og Junckers „valdi miklum áhyggjum,“ í Guardian kemur fram að forsætisráðherrann hafni frásögnum af fundinum, sömuleiðis Sky fréttastofan, en The Times vitnar í Juncker og efasemdir hans eftir fundinn. 

 

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV