Mattis varar við hörmungum stríðsrekstrar

11.08.2017 - 02:28
Secretary of Defense Jim Mattis answers questions while speaking at the Defense Innovation Unit Experimental in Mountain View, Calif., Thursday, Aug. 10, 2017. Not backing down, President Donald Trump warned Kim Jong Un's government on Thursday to
 Mynd: AP
Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, varar við því, að stríð við Norður-Kóreu myndi hafa gríðarlegar hörmungar í för með sér og segir milliríkjasamstarf og viðræður þegar hafa skilað árangri. Mattis ræddi við fréttamenn í dag, aðeins nokkrum stundum eftir að Donald Trump, Bandaríkjaforseti, sendi stjórnvöldum í Pjongjang óvenju herská skilaboð í tvígang.

Mattis sagði það sitt hlutverk og skyldu að tryggja að hernaðarleg úrræði séu til staðar, „ef grípa þyrfti til þeirra," en undirstrikaði að Bandaríkin legðu höfuðáherslu á viðræður og pólitíska lausn. „Aðgerðir Bandaríkjanna [til að leysa deiluna við Norður Kóreu, innsk. blm.] eru á forsjá diplómata, þær njóta vaxandi stuðnings og eru að skila árangri og ég vil að við höldum okkur við þá leið akkúrat núna," sagði Mattis. „Hörmungar stríðsrekstrar eru alveg nógu vel þekktar; það þarf ekki að lýsa þeim neitt frekar og nægir að segja að þær yrðu skelfilegar."

Mattis fór ekki nánar út í hvaða árangur hefði náðst í milliríkjaviðræðum umfram það að benda á að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti um síðustu helgi ályktun sem Bandaríkin lögðu fram um mjög hertar viðskiptaþvinganir gegn Norður-Kóreu. Var ályktunin samþykkt einróma og þótti það umtalsverður sigur fyrir Bandaríkjamenn að hvorir tveggja Rússar og Kínverjar, helstu bandamenn Norður-Kóreustjórnar, skyldu samþykkja hana umyrðalaust.

„Hversu oft hafið þið orðið vitni að því að Frakkar, Kínverjar, Rússar og Bandaríkin greiði einhverju málefni einróma atkvæði sitt?" spurði Mattis.