Matarkostnaður fjórðungur miðað við Ísland

15.05.2017 - 16:57
Árni Einarsson, verslunarmaður, hefur verið með annan fótinn í Berlín á síðustu árum. Hann ræddi við Spegilinn um samkeppni á þýskum matarmarkaði og neytendur þar í landi sem eru grimmir og kjósa með buddunni.

Grimmir neytendur

„Eitt lægsta verðlag í Þýskalandi er í Berlín. Ef eitthvað hækkar í verði, hætta Berlínarbúar að kaupa það,“ segir Árni og bætir við að neytendur séu grimmir sem meðal annars skili sér í mikilli samkeppni á milli matvöruverslana. Hann segir að samanburður á verðlagi sé hluti af þýskri menningu og landsmenn taki það alvarlega að finna ódýrustu vöruna hverju sinni. „Þeir versla inn eftir verði, ekki eftir því hvað þeim langar í. Þá langar í það sem er ódýrast.“

Sjokk að koma til Íslands

Árni segir að verð í lágvöruverslunum Berlínar eins og ALDI eða Nettó sé allt annað en þekkist á Íslandi. „Mín reynsla er sú að þú ferð leikandi með að eyða 25 prósentum af því sem matur kostar heima á Íslandi. Ef þú hugsar ekkert um hvað þú ert að kaupa er allt svona helmingi ódýrara.“ Að koma til Íslands, í íslenskt verðlag er því töluvert sjokk viðurkennir Árni. „Auðvitað veit maður samt að það kostar að flytja vörur til Íslands og að það er sameiginlegt átak verslunar heima og kúnna að ná niður flutningskostnaði til landsins og láta ekki merkjavöruna ráða svona miklu.“​

 

Mynd með færslu
Björg Magnúsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi