Markmiðið að allir starfsmenn verði íslenskir

11.03.2017 - 20:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Ágúst Ólafsson
Byrjað er að auglýsa eftir almennu starfsfólki í kísilverksmiðju PCC á Bakka við Húsavík. Ljóst er að mikil samkeppni á vinnumarkaði hjálpar ekki til við að ráða starfsmenn, en ætlunin er að finna sem flesta þeirra á meðal heimamanna. 

Framkvæmdastjórn PCC Bakka Silicon var ráðin fyrr ári og síðan hefur fjölgað smám saman. Í dag er búið að ráða tæplega 20 manns, stjórnendur og millistjórnendur. Þessar vikurnar er verið að ráða vaktstjóra og nú eru farnar að birtast auglýsingar eftir iðnaðarmönnum og verkafólki til starfa í sjálfri verksmiðjunni. Það verður langstærsti hópurinn.

Um 110 starfsmenn í heildina

„Iðnaðarmennirnir byrja að koma inn strax núna í sumar,“ segir Jökull Gunnarsson, framkvæmdastjóri framleiðslu PCC Bakka Silicon. „Sumir þurfa að fara í þjálfun út til Þýskalands, hjá framleiðanda verksmiðjunnar, og sumir koma inn fram á haustmánuði. Verkafólk byrjar að koma svona í september, október, nóvember. Þeir síðustu í nóvember. Þá vonandi verðum við búin að ná inn heildartölunni sem er í kringum 110 starfsmenn.“

Mikil eftirspurn eftir fólki á vinnumarkaði

Jökull segir að til þessa hafi tekist að ráða í öll störf sem auglýst hafa verið. Margir komi frá Húsavík og nágrenni, og markmiðið sé að ráða sem flesta úr Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. En menn viti að það verður ekki auðvelt að fylla í öll þessi störf nú þegar mikil eftirspurn er eftir fólki. Hann segir þó ekki endilega fyrirséð að það þurfi á endanum að leita í erlent starfsfólk. „Við höfum ekki séð það fyrir ennþá, en við vitum að það mun kannski þurfa að skoða það, ef okkur tekst ekki að fylla í þessi störf. Það er alveg ljóst,“ segir Jökull.