„Marklaust að halda áfram birtingu“

03.08.2017 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Smásöluvísitala dagvöru verður aflögð eftir að Hagar tilkynntu að fyrirtækið verði ekki lengur þátttakandi í vísitölunni. Forstöðumaður rannsóknarseturs verslunarinnar, sem hefur reiknað vísitöluna, segir slæmt að missa þannig fyrstu vísbendinguna um breytingar á neyslu landsmanna. Hagar hafi það stóra markaðshlutdeild að það væri: „marklaust að halda áfram birtingu á vísitölunni að svo stöddu,“ segir Emil B. Karlsson, forstöðumaður Rannsóknarseturs verslunarinnar.

Rannsóknarsetur verslunarinnar hefur mánaðarlega, í fimmtán ár, birt tölur um breytingar á kauphegðun hér á landi. Fyrir tæpum þremur vikum var síðast var birt smásöluvísitalan. Úr þeim upplýsingum mátti lesa að samdráttur hefði orðið í veltu dagvöruverslana en Costco hefur ekki viljað taka þátt í útreikningi á vísitölunni. Í frétt Rannsóknarsetursins segir að veltan í dagvöruverslunum hafi aukist síðastliðið ár og því hafi samdráttur í júní verið úr takti við þá þróun. Líklegt sé að Costco hafi klipið af markaðshlutdeild þeirra verslana sem fyrir voru á markaði og það skýri samdráttinn, segir í frétt á vef Rannsóknarseturs verslunarinnar. Núna hafa Hagar tilkynnt að fyrirtækið veiti ekki lengur upplýsingar til útreiknings smásöluvísitölunnar. 

Emil B. Karlsson, forstöðumaður Rannsóknarsetursins, segir að þetta sé fyrst og fremst slæmt fyrir verslanir, því þær hafi getað nýtt sér vísitöluna til að sjá hvernig þær standi í samanburði við aðra. „Þessi smásöluvísitala hún er svona fyrsta vísbending um allar breytingar,“ segir Emil.

Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar hefur það engin áhrif á útreikninga og spár stofnunarinnar að smásöluvísitalan verði ekki lengur reiknuð út. Upplýsingar hafa ekki fengist frá Seðlabankanum um hvort þetta hafi áhrif á útreikninga þeirra. Emil segir að smásöluvísitala dagvöru verði ekki lengur gefin út. „Vegna þess að Hagar hafa svo stóra markaðshlutdeild að það væri marklaust að halda áfram birtingu á henni að svo stöddu,“ segir Emil.