Margrét Lára hrædd um að ferillinn sé á enda

04.07.2017 - 19:45
„Fyrsta sem ég hugsaði var bara hvort ferillinn minn væri búinn. Er þetta bara búið? Og er þetta virkilega að fara að enda svona,“ segir Margrét Lára Viðarsdóttir markahæsti leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu um það þegar henni var tjáð að hún væri með slitið krossband og myndi missa af EM í Hollandi í sumar.

Margrét Lára og Elísa systir hennar slitu báðar krossbönd á vormánuðum og missa því af Evrópumótinu í Hollandi. Edda Sif Pálsdóttir settist niður með þeim systrum á æskuslóðum í Vestmannaeyjum og fékk þær til að fara yfir vonbrigðin sem fylgja því að missa af EM.

„Fótunum gjörsamlega kippt undan mér“

Margrét Lára fékk tíðindin um hvers eðlis hennar meiðsli væru daginn fyrir vináttulandsleikinn við Brasilíu í júní. Þá var Margrét að jafna sig af meiðslum, sem hún taldi aðeins léttvæg.

„Það er í rauninni bara daginn fyrir Brasilíuleikinn. Þá var ég búin að fara í gegnum heila landsliðsferð og búin að fara á nokkrar landsliðsæfingar og taka upphitun með liðinu. Mér fannst þetta alltaf líta betur og betur út, og klínískar athuganir litu vel út. Hnéð var stöðugt. Þannig að fyrstu dómar voru bara að ég hefði tognað illa. En svo er fótunum gjörsamlega kippt undan mér á augabragði. Ég skil ekki alveg ennþá hvernig þetta gerðist. Mér finnst ég ennþá vera stödd í einhverri martröð sem á eftir af vekja mig af,“ sagði Margrét Lára meðal annars í viðtalinu sem sýnt var í þættinum Leiðin á EM á RÚV í kvöld.

Fékk hálfgjört taugaáfall

„Í raun og veru er ég bara að spjalla við Frey [Alexandersson landsliðsþjálfara] um að koma sterk inn í júlí. Þá segir hann mér að það séu tveir læknar að koma til að skoða mig. Bæði Arnar landsliðslæknirinn okkar og svo sérfræðingur frá Orkuhúsinu. Þeir ætluðu að skoða mig eitthvað frekar. Ég á held ég aldrei eftir að gleyma þessum degi,“ sagði Margrét þegar hún rekur daginn sem hún fékk tíðindin um að EM væri úr sögunni.

„Ég er að ganga inn ganginn hjá KSÍ sem maður gengur yfirleitt í gleðivímu fyrir eða eftir leik með landsliðinu. Arnar slær svona létt á öxlina á mér og segir mér að þetta sé spurning með krossbandið. Ég bara fæ hálfgjört taugaáfall. Mig langaði eiginlega bara að slá hann til baka, því ég hélt að hann væri að grínast í mér. Svo leggst ég á bekkinn og þeir skoða mig báðir og Haukur sem tók matið, sýndi mér það að hnéð væri aðeins lausari öðrum meginn. Ég bara byrjaði að titra og skjálfa. Á þessum tímapunkti voru þetta verstu fréttir sem ég gat hugsað mér sem knattspyrnukona. En auðvitað gengur fólk í gegnum erfiðari hluti í lífinu. Ég átta mig alveg á því. En sem knattspyrnukona þá var þetta mikið áfall á þessari stundu.“

„Er þetta virkilega að fara að enda svona?“

Það þyrmdi yfir Margréti Láru og fyrstu hugsanir voru eðlilega ekki fallegar. „Fyrsta sem ég hugsaði var bara hvort ferillinn minn væri búinn. Er þetta bara búið? Og er þetta virkilega að fara að enda svona? “ Og hún segist ennþá vera hrædd um það. 

Margrét ákvað að byrja að vinna úr áfallinu strax. „Þetta var eiginlega eins og einhver sena í bíómynd. Ég fór inn til að reyna að jafna mig á þessum fréttum. Svo fer ég út til að ræða við Frey og það sáu allir að það væri eitthvað að. Þetta er þannig hópur að við treystum öllum vel og erum eins og ein stór fjölskylda. Þannig ég sá ekkert því til fyrirstöðu að segja stelpunum þetta strax. Þannig að við tókum bara góðan hring eins og við gerum oft. Freyr sagði stelpunum frá þessu og við grátum þarna bara allar saman í kór. Svo bara skilja leiðir að sinni.“

Nánar var rætt við Margréti Láru og Elísu Viðarsdætur í þriðja þætti Leiðarinnar á EM sem sýndur var á RÚV í kvöld. Viðtalið við þær systur má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

Mynd með færslu
RÚV ÍÞRÓTTIR
Leiðin á EM