Mannskæð hitabylgja á Spáni

14.07.2017 - 03:42
Erlent · Hamfarir · Evrópa · Spánn · Veður
epa06083533 A thermometer marks a temperature of 47 degrees Celcius, as seen near a sculpture of Saint Raphael in Cordoba, Spain, 12 July 2017. A heatwave has hit Spain and high temperatures are expected to continue throughout the following week.  EPA
HIti mældist 47 gráður á Celsius í borginni Cordoba og hefur ekki mælst hærri.  Mynd: EPA  -  EFE
Minnst einn maður er látinn og annar er í lífshættu af völdum mikillar hitabylgju á Spáni. Hitinn fór yfir 47 stig í suðvesturhluta Spánar á fimmtudag. 54 ára gamall verkamaður, sem var að störfum við malbikunarframkvæmdir nærri bænum Moron de la Frontera í Sevilla-héraði á miðvikudag, féll í ómegin og var fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést skömmu síðar. Hitinn mældist um eða yfir 43 gráður þar sem hann var að störfum.

Verkalýðsfélag mannsins, sem er það stærsta á Spáni, tilkynnti að rannsókn sé hafin á því hve lengi maðurinn hafði verið við vinnu þegar hann missti meðvitund og hvort gerðar hafi verið viðeigandi varúðarráðstafanir vegna hitans. Í gær, fimmtudag, fékk fimmtugur maður hitaslag í Badajoz-héraði, einnig á Suðvestur-Spáni, og liggur enn á gjörgæslu.

Hitamet voru slegin í sjö spænskum borgum á fimmtudag, samkvæmt upplýsingum spænsku veðurstofunnar. Þeirra á meðal er höfuðborgin Madríd, þar sem hitinn fór upp í 40,2 gráður, en fyrra met, frá 2015, var 39,6 gráður. Hitamet voru einnig slegin í borgunum Badajoz, Caceres, Ciudad Real, Jaen, Teruel og Cordoba, þar sem mælar sýndu allt að 47 gráður á Celsius. Veðurfræðingar syðra spá því að hitabylgjan, sem rekja má til heits loftmassa sem berst yfir hafið frá Norður-Afríku, muni standa fram á sunnudag hið minnsta. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV