Mannlífið á Gásum árið 1317

Innlent
 · 
Norðurland
 · 
Menningarefni

Mannlífið á Gásum árið 1317

Innlent
 · 
Norðurland
 · 
Menningarefni
15.07.2017 - 13:23.Ágúst Ólafsson
Miðaldadagar standa yfir á Gásum við Eyjafjörð nú um helgina. Þar er hægt að kynnast daglegum störfum íbúanna á þessum forna verslunarstað, líklega eins og þau voru fyrir 700 árum.

Þegar gengið er á milli húsa, eða tjalda, á Gásum er fátt sem bendir til þess að nú sé árið 2017. Enda er Miðaldadögum ætlað að endurskapa Gásakaupstað til forna.

Búið að gæða gamla Gásakaupstað lífi

„Árið er 1317, það er augljóst,“ segir Haraldur Þór Egilsson, „bæjarstjóri“ á Gásum. „Hér erum við búin að gæða gamla Gásakaupstað lífi og hér er allt fullt af fólki sem er að sýna handverk og gera eitthvað skemmtilegt,“ segir hann.

„Fólk bjargaði því sem bjargað varð“

En svo slær í brýnu og brjótast út áflog, sennilega verið að rífast um verð. En það er ekki slegist við handverkið. „Það var náttúrulega unnið heima og heimafengið efni og fólk sá um sig og bjargaði því sem bjargað varð,“ segir Guðrún Hallfríður Bjarnadóttir, handverkskona. “Og fólk seldi héðan vaðmálið og það sem það gat farið með héðan.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Björgvin Kolbeinsson
Þessi óeirðaseggur fær það óþvegið í gapastokknum

Vinnur bókfell úr íslensku kálfaskinni

Og til Gása er kominn Jiri Vnouchek, gestur frá Tékklandi, til að vinna bókfell úr íslensku kálfaskinni. „Núna er ég að vinna skinnið og svo strengi ég það upp og læt þorna. Þetta eru íslensku handritin, öll þeirra,“ segir hann og brosir.

Segir Miðaldadaga vinsæla og stækkandi hátíð 

Miðaldadagar á Gásum standa frá föstudegi til sunnudags og hafa verið haldnir mörg undanfarin ár. Og Haraldur segir hátíðna fara stækkandi. „Og það á eftir að gerast ýmislegt hérna um helgina,“ segir hann.