Mannleg saga um sorg, missi og eftirsjá

17.03.2017 - 12:00
Óskarsverðlaunamynd Kenneth Lonergan, Manchester by the Sea með Casey Affleck í aðalhlutverki, grefur sig inn að beini áhorfenda segir kvikmyndarýnir Lestarinnar. Affleck er stórgóður í hlutverki sínu og handritið sé meistaralega skrifað. „Það hvílir í raun djúp sorg yfir allri myndinni. Einlæg og hrein sorg sem ýfir upp sárin í manni sjálfum.“

Gunnar Theodór skrifar:

Manchester By The Sea, nýjasta mynd leikskáldsins og leikstjórans Kenneth Lonergan sem hafði djúp tilfinningaleg áhrif á mig, enda reglulega vel smíðuð og mannleg saga um sorg, missi og eftirsjá. Þetta er lágstemmt og persónulegt drama úr smábæ á Nýja Englandi og myndin hlaut m.a. Óskarsverðlaun fyrir besta handrit hjá Lonergan og besta leik karlmanns í aðalhlutverki, Casey Affleck, verðlaun sem hafa reynst nokkuð umdeild í ljósi ásakana um vafasama hegðun leikarans á tökustað á annarri mynd fyrir nokkrum árum. Þannig hefur umræða um kynferðislega áreitni og flækjur þess að verðlauna karlmenn sem hafa verið ásakaðir um slíkt sveimað í kringum Óskarsverðlaun Afflecks, sem ég ætla þó ekki að fara sérstaklega út í hér, en vert er að minnast á.

Kvikmyndin segir annars frá Lee Chandler, sem Affleck leikur, og við kynnumst í upphafi myndar sem þunglyndislegum húsverði í Boston sem býr einn í agnarsmárri kjallarakompu þar sem hann virðist lítið gera annað en að drekka bjór, glápa á sjónvarpið og fara á barinn til að slást. Lífið er tilbreytingarlaust, en tilveran hristir við honum þegar Lee fær símtal úr heimabænum, Manchester, og fréttir að bróðir sinn hafi fengið hjartaáfall. Hann keyrir strax af stað heim en þegar hann mætir á staðinn er bróðirinn látinn. Þegar Lee fer að rýna í erfðaskrá bróður síns kemur í ljós að hann hefur gert Lee ábyrgan fyrir unglingssyni sínum, hinum sextán ára Patrick, og við tekur nokkurs konar þroskasaga þar sem Lee þarf að finna leið til að sjá um þennan frænda sinn og í leiðinni að horfast í augu við sínar eigin flækjur og drauga fortíðar. 

Í brotinu hér að ofan sjáum við rifrildi á milli frændanna um hvernig eigi að haga málum varðandi fjölskyldubátinn, en brotið sýnir einnig fram á tón myndarinnar, kjaftfor á köflum, en líka eðlilegur og afslappaður, og merkilega fyndinn miðað við hversu yfirgengilega dramatísk myndin er líka. Manchester By The Sea er tregafull, sorgleg og lágstemmd eins og aðalpersónan Lee Chandler. Tilfinningatregða og doði stýrir öllu og grefur sig alveg inn að beini eftir því sem líður á myndina og við tengjum okkur hugarheimi aðalpersónunnar betur og förum að átta okkur á víðara samhenginu.

Það gerist með minningum sem brjóta sér leið í gegnum frásögnina og útskýra hluta úr fortíð Lees, á brotakenndan og áhrifamikinn hátt, og við skynjum jafnt og þétt að yfir honum hvílir mun meiri harmur en virðist við fyrstu sýn. Það hvílir í raun djúp sorg yfir allri myndinni. Einlæg og hrein sorg sem ýfir upp sárin í manni sjálfum. Myndin er reglulega vel skrifuð og maður á til að hugsa um verðlaunahandrit sem svo að þau snúist alfarið um díalóg, að samtölin séu hnyttin og snjöll eða raunsæislega skrifuð, en gott handrit er meira en bara samtöl, og hér er augljóst hvað Lonergan er sterkur höfundur til dæmis hvað varðar tóninn, því hann nær merkilega góðu jafnvægi á milli húmors og drama, en ekki síður uppbygginguna, sem virkar þannig að hvert endurlit hefur sterk áhrif á framrás sögunnar og heildarmyndina.

Casey Affleck er stórgóður í aðalhlutverkinu, svo bældur og lokaður að varla er annað hægt en að finna til með honum, og aðrir leikarar eru ekki síðri, enda virðast smæstu hlutverk öll holdi klædd sem raunverulegar og lifandi persónur. Lonergan tekst líka að tvinna saman margþættu handriti sem snertir á ólíkum þemum, ekki bara sorginni, heldur líka lífsgleði, uppvaxtarsögu, rómantík, fjölskyldudrama, breyttu lífi í litlu sjávarplássi, í mynd sem gæti svo auðveldlega endað sem yfirgengilega melódramatísk og níðþung í höndum slakari leikstjóra, en nálgast erfitt efni á svo grípandi hátt, meðal annars með því að gera handritið dálítið brotakennt, að upplifunin nær alveg inn að hjartarótum þegar þess er þörf. 

Að lokum verð ég að minnast stuttlega á þennan bölvaða ósið okkar Íslendinga að hafa hlé í bíó og mæla með því að áhugasamir sjái Manchester By The Sea þar sem slíkt ofbeldi er ekki við lýði, ef tækifæri gefst, því hléið kom á allra versta tíma og reif mig tárvotan út úr myndinni, með enga lyst á poppi eða nammi.

 

Mynd með færslu
Vefritstjórn
Lestin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi