Málverk sem vísa út í heim

10.03.2017 - 16:34
Myndlistarmaðurinn Kristján Steingrímur Jónsson skoðar í verkum sínum vel þekkta þætti í tilvist mannsins; minni, tíma og staðsetningu. Á nýrri sýningu í Berg Contemporary galleríi, sem opnar laugardaginn 11. mars, sýnir hann fínlegar teikningar og málverk sem eiga sér alltaf tengingar eitthvert út í heim.

Kristján Steingrímur segist vilja fara með myndlistarunnendur á marga ólíka staði í verkum sínum. „Þetta eru verk sem tengjast ferðalögum mínum á 20. ára tímabili,“ segir Kristján. „Á hverjum stað upplifi ég eitthvað áhugavert og mér finnst eitthvert tilefni til að rannsaka hvern stað fyrir sig. Ég fór að taka sýnishorn frá hverjum stað, sem stækkuðu síðan þegar á leið,“ segir Kristján sem hefur notað sand og jarðefni í málverk sín. „Ég varð alltaf stórtækari og þetta endaði með því að vera í kílóavís, efnið sem ég síðan notaði í verkið.“

Ómerkilegir og merkilegir staðir

Götuhorn og umferðareyjur geta orðið Kristjáni að yrkisefni í verkum hans, rétt eins og falleg og merkileg náttúrufyrirbæri. „Málverkin eru oft vegvísar en ferðalag áhorfandans er  í huganum,“ segir Kristján Steingrímur. Verkin sýnast einföld við fyrstu sýn, en leyna á sér eins og öll góð myndlist. 

Nánari upplýsingar um sýninguna má finna á vefsíðu Berg Contemporary sem er til húsa við Klapparstíg 16. 

Rætt var við Kristján Steingrím í Víðsjá á Rás 1. Nokkur plokk úr fjórða strengjakvartett Bartóks hljóma í innslaginu. 

Mynd með færslu
Guðni Tómasson
dagskrárgerðarmaður
Víðsjá
Þessi þáttur er í hlaðvarpi