Makrílvinnsla hafin að nýju

08.08.2017 - 16:37
Mynd með færslu
 Mynd: www.svn.is  -  RÚV
Makrílvinnsla er hafin að nýju í fiskiðjuverinu í Neskaupstað eftir verslunarmannahelgi. Beitir NK kom til Neskaupstaðar í morgun með 760 tonn af makríl.

Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar. Tómas Kárason, skipstjóri, segir að makríllinn sé hinn fallegasti. Aflinn fékkst í í fimm holum og það voru mest 180 tonn í holi. Byrjað var að toga út af Reyðarfjarðardýpi og túrinn endaði 80 mílur austnorðaustur af Norðfjarðarhorni.

Bjartsýnn á góða veiði

Tómas segir að honum lítist þokkalega á veiðina fram undan, fiskurinn sé að koma á þessi mið og það eigi eftir að koma fiskur í verulegum mæli. Börkur NK og Bjarni Ólafsson AK voru við makrílveiðar í grænlensku lögsögunni yfir verslunarmannahelgina. Afli reyndist vera tregur og er Börkur nú á heimleið með 220 tonn og siglir  Bjarni Ólafsson í kjölfar hans.

Mynd með færslu
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV