Makrílvertíðin hafin fyrir alvöru

25.07.2017 - 17:30
Mynd með færslu
Skip Síldarvinnslunnar, Beitir NK, við löndun í fiskimjölsverksmiðju SVN á Seyðisfirði  Mynd: RÚV  -  www.svn.is
Útlit er fyrir að makrílvertíðin sé hafin fyrir alvöru eftir að hafa farið rólega af stað. Skipstjóri á Beiti frá Neskaupstað segir makrílinn líta vel út og sé fallegur miðað við árferði.

Beitir frá Neskaupstað kom til hafnar í morgun með 640 tonn af makríl úr fyrsta túr vertíðarinnar. Í frétt á vef Síldarvinnslunnar, sem gerir út skipið, segir að makrílvertíðin sé nú hafin fyrir alvöru. 

Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, segir að veiðarnar hafi hafist í Hornafjarðardýpinu og endað í Skeiðarárdýpi. Nokkuð mörg skip hafi verið á miðunum, enda aðstæður góðar og hægt að sjá vaðandi makríl um allan sjó.  „Já veðrið var sérstaklega gott og það er oft eins og það er þegar sjórinn verður sléttur og makríllinn er í ætisleitinni þá veður hann þarna um,“ segir Tómas. 

Og makríllinn virðist vera hinn ágætasti í ár. „Fiskurinn lítur bara mjög vel út, alveg þokkalega stinnur og fallegur svona miðað við árferði. Þetta var mjög stór og fallegur makríl, þetta var 430 grömm að meðalvigt,“ segir Tómas. 

Tómas er bjartsýnn á að það takist að klára kvótann. Vertíðin hafi byrjað rólega hjá flestum, en nú bendi til þess að veiðar hefjist fyrir alvöru. „Þetta er nú bara fyrsti túrinn okkar og það er nóg eftir af honum. Við bara höldum áfram að skapa verðmæti og bera í vinnsluna, það er stefnan,“ segir Tómas.