Magnús kærir upplýsingaleka frá lögreglu

05.05.2017 - 06:30
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Magnús Ólafur Garðarsson, einn af stofnendum United Silicon og fyrrverandi forstjóri verksmiðjunnar, telur að lögregla hafi lekið upplýsingum um hraðakstursmál hans til DV og hefur kært lekann til Ríkissaksóknara. Þetta staðfestir Jóhann Fannar Guðjónsson, lögmaður Magnúsar, í samtali við fréttastofu.

DV fjallaði um málið fyrst miðla í byrjun mars. Magnús og lögmenn hans telja ljóst að við umfjöllun sína hafi blaðamaður DV haft óeðlilega greiðan aðgang að upplýsingum um málið sem hljóti að hafa komið annað hvort frá Lögreglunni á Suðurnesjum, sem rannsakaði málið í fyrstu, eða frá Héraðssaksóknara, sem rannsakaði það á síðari stigum.

Jóhann segir að Ríkissaksóknari hafi vísað málinu til nýskipaðrar nefndar innanríkisráðherra um eftirlit með störfum lögreglu. Nefndin tók til starfa í ársbyrjun og eitt af meginhlutverkum hennar er að taka við kvörtunum frá almenningi yfir störfum lögreglu, fara yfir þær og greina og koma málinu svo í viðeigandi farveg hjá lögreglu- eða saksóknaraembætti. Jóhann segir að í þessu tilviki hafi nefndin vísað málinu aftur til Ríkissaksóknara til meðferðar.

Fréttastofa greindi frá því gær að Magnús hefði verið ákærður fyrir almannahættubrot og líkamsárás af gáleysi með ofsaakstrinum í desember síðastliðnum. Magnús er sakaður um að hafa keyrt á allt að 183 kílómetra hraða við vondar aðstæður og á endanum valdið slysi. Maður sem meiddist í árekstrinum krefur Magnús um eina milljón króna í skaðabætur.

Tesla-bíllinn sem Magnús ók – einn aflmesti rafbíll sem fluttur hefur verið til Íslands – er nú í vörslu yfirvalda, sem krefjast þess að hann verði gerður upptækur vegna ítrekaðra og vítaverðra brota Magnúsar. Magnús hefur freistað þess að fá hann aftur í sínar hendur, en án árangurs.