Madrídarslagur í undanúrslitum

21.04.2017 - 10:44
epa05918885 Former Welsh soccer player and ambassador for the UEFA Champions League final in Cardiff Ian Rush shows a ticket with Spanish soccer team 'Club Atletico de Madrid' during the semi-final draw of the UEFA Champions League 2016/17, at
 Mynd: EPA  -  KEYSTONE
Dregið var í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu rétt í þessu. Real Madríd mætir Atletico Madríd og Juventus mætir Monaco.

Dregið var í Nyon í Sviss en þar eru höfuðstöðvar evrópska knattspyrnusambandsins, var það enginn annar en Liverpool goðsögnin Ian Rush sem sá um að draga.

Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar í fyrra var einmitt milli Real og Atletico en þá lagði Real síðarnefnda liðið að velli í vítaspyrnukeppni.  Árið 2014 mættust þessi lið einnig í úrslitaleik og vann Real þá í framlengingu.

Monaco eða Juventus koma því til með að mæta spænsku liði í úrslitaleiknum sem fram fer í Cardiff í Wales þann 3. júní.  Síðast þegar Juventus fór í úrslit, árið 2015, mætti það einnig spænsku liði en þá töpuðu þeir fyrir Barcelona sem þeir unnu í 8-liða úrslitum í ár.  

Fyrri undanúrslitaleikirnir fara fram 2 og 3 maí og seinni leikirnir verða svo viku síðar.

Gunnar Birgisson
íþróttafréttamaður