„Louisa fór alltaf sínar eigin leiðir“

Myndlist
 · 
Menningarefni

„Louisa fór alltaf sínar eigin leiðir“

Myndlist
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
09.05.2017 - 12:22.Halla Oddný Magnúsdóttir
„Maður fékk það alltaf á tilfinninguna að þarna væri manneskja sem þyrfti ekkert endilega á neinum öðrum að halda. Og henni var nokk sama hvað öðrum fyndist,“ segir Jón Proppé listfræðingur um Louisu Matthíasdóttur.

Jón er sýningarstjóri yfirlitssýningar sem nýlega var opnuð  á verkum Louisu á Kjarvalsstöðum, í tilefni þess að listakonan hefði orðið 100 ára í ár. Menningin ræddi við Jón, en líka dóttur Louisu, Temmu Bell listmálara, í íbúð í miðbæ Reykjavíkur sem Louisa átti og málaði í.

Hógvær en kjörkuð huldukona

Auk verka úr opinberum og einkasöfnum á Íslandi eru á yfirlitssýningunni verk úr eigu dóttur Louisu, listmálarans Temmu Bell, og fjölskyldunnar - fágætir munir á borð við skissubækur og óútgefin bókverk. Temma Bell hefur unnið að því að fagna afmæli móður sinnar með yfirlitssýningu í nokkur ár.

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Temma Bell

„Ég veit það hefði verið mjög erfitt fyrir mömmu að gera svona sjálf,“ segir Temma. „Hún var bara ánægð að mála,“ bætir hún við. „Það var öðruvísi gengið að hlutum í Bandaríkjunum: Maður kemst í gallerí og svo sjá þau um það. En hér þurfti maður að koma og leigja og finna stað að sýna - og það var ekki neitt sem mamma gat gert,“ segir Temma.

Mynd með færslu
 Mynd: Louisa Matthíasdóttir

Ný kynslóð fær að kynnast Louisu

Louisa Matthíasdóttir var lengi dálítil huldukona í íslenskri myndlist. Hún hélt til New York í framhaldsnám 1942 og settist þar að með eiginmanni sínum, bandaríska listmálaranum Leland Bell. Upp úr miðri öldinni fór frægðarsól hennar að rísa í listheiminum vestra, en á meðan slegist var um verk hennar í galleríum í New York höfðu fáir hér á landi séð nokkuð af þessum verkum. Íslendingar lásu að vísu um velgengni hennar ytra í Morgunblaðinu, en fyrsta einkasýning hennar hér á landi var ekki opnuð fyrr en 1987.  Jón Proppé segir mikilvægt að ný kynslóð fá að kynnast verkum hennar, en síðast var haldin yfirlitssýning á verkum Louisu 1993.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Fámál og hlédræg

Myndlist

Louisu Matthíasdóttur minnst í Höfða

Innlent

Aldarafmæli Louisu Matthíasdóttur