Losun koltvísýrings eykst sennilega um 60%

Mynd með færslu
 Mynd: Benedikt Guðnason  -  Radio.is
Heildarlosun Íslands hefur aukist undanfarin ár og heldur áfram að aukast. Útlit er fyrri að ný kísilver og önnur stóriðja geri það að verkum að hún verði á næstu árum 60% meiri en hún var árið 1990. Önnur losun virðist líka vera að aukast. Einungis tvö Evrópuríki hafa aukið losun sína meira en Ísland, síðastliðna þrjá áratugi.

„Það er nokkuð ljóst að losunin stefnir upp á við,“ segir Hugi Ólafsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu. 

„Svona gífurlegur vöxtur eins og hefur verið í ferðaþjónustu, 30-40% og því sem það fylgir, það er mjög líklegt að það skili sér í aukinni losun. Ef við horfum svo lengra fram í tímann er ljóst að heildarlosun frá Íslandi mun aukast mjög mikið, líklega um tugi prósenta. Þar kemur inn stóriðjan.“

Hrunið fleytti okkur fram úr áætlunum

Losunin hefur ekki aukist jafnt og þétt. Hún náði hámarki árið 2008. Í kjölfar bankahrunsins dró úr henni, ívið meira en losunaráætlanir gerðu ráð fyrir.

Mynd með færslu
Eftir hrun dró verulega úr byggingaframkvæmdum og losun vegna þeirra.

Hún stóð svo í stað fram til ársins 2014, þá fór hún að aukast á ný. Í skýrslu ráðuneytisins um framkvæmd aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum sem kom út árið 2015 kemur fram að stjórnvöld þurfi að vera viðbúin því að bregðast við aukinni losun með auknum aðgerðum.  

Enn eitt hitametsárið

Rannsóknir hafa staðfest að árið 2016 var það heitasta frá upphafi mælinga um 0,2 gráðum heitara en árið 2015. Þetta kemur fram á vefsíðu Loftslagsskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, UNFCCC. Meðalhitastig var 1,3 gráðum hærra en meðalhitastig á jörðinni í lok 19. aldar. Frá aldamótum hafa 16 ár hampað titlinum, heitasta árið frá upphafi mælinga. Ef þróunin heldur svona áfram er ljóst að tveggja gráðu markmiðið sem Parísarsáttmálinn grundvallast á næst ekki. Á Norðurslóðum er hlýnunin tvöfalt meiri en að meðaltali á jörðinni. Farfuglar eru farnir að flýta för sinni til Íslands. Hafísþekjan minnkar um sem nemur einu og hálfu Íslandi á hverju ári og útlit er fyrir að Norður-Íshaf verði íslaust á sumrin fyrir 2050. Einnar til fjögurra gráðu hlýnun er talin geta ýtt af stað óafturkræfri bráðnun Grænlandsjökuls. Hún myndi hækka sjávarborð um 7 metra. 

Mynd með færslu
 Mynd: Jerzy Strzelecki  -  Wikipedia
Það hefur verið óvenju hlýtt á Svalbarða undanfarið.

Loftslagsbreytingar eru ekki bara lóusöngur. Útlit er fyrir að þær komi til með að raska þeim kerfum sem við byggjum afkomu okkar á verulega og hrekja milljónir á flótta. Hætt er við því að skortur á ræktarlandi, matvælum og vatni leiði til stríðsátaka. Þá ógnar súrnun sjávar lífríki sem er Íslendingum afar mikilvægt, súrnunin hefur ekki verið meiri í 65 milljónir ára. 

Viðburðaríkt loftslagsár

Í fyrra gerðist ýmislegt á sviði loftslagsmála, bæði jákvætt og neikvætt. Alþjóða veðurfræðistofnunin lýsti því yfir að loftslagsbreytingar yrðu nú með meiri hraða en áður. Parísarsáttmálinn varð að lögum. Kínverjar og Bandaríkin, þau ríki sem menga mest á heimsvísu, voru í fararbroddi. Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna hótaði svo að rifta samkomulaginu. Það veldur óvissu. Bráðnun sífrera í Síberíu leiddi til þes að gömul hreindýrshræ, sem sýkt höfðu verið af miltisbrandi, þiðnuðu og bakterían fór á stjá. Rannsóknir sýndu að losun metangass, sem er 25 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur, hefði tífaldast síðastliðinn áratug. Þá mældist magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu yfir 400 hlutum á hverja milljón hluta í september, í stað þess að minnka árstíðabundið, eins og venjulega, hélt magnið áfram að aukast. Talið er að það fari ekki undir 400 milljónahluta aftur. Rannsóknir sýndu líka að kúrfan fyrir losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu virðist vera að fletjast út, vöxturinn virðist vera í rénun. Talið er að þetta sé að mestu Kínverjum að þakka en þeir hafa brugðist við geigvænlegri loftmengun frá kolaverum með því að nota betri kol, bæta mengunarvarnir og fjárfesta í endurnýjanlegum orkugjöfum.

Nú reiðir veröldin sig á Parísarsamkomulagið. Það þykir mikil bjartsýni að halda því fram að halda megi hlýnun innan við tvær gráður. Markmið sáttmálans er að draga úr hraða breytinga svo vistkerfi og samfélög geti aðlagað sig að þeim. Samtökin Climate Action Tracker áætla að meðalhitastig við lok þessarar aldar verði 2,8 gráðum yfir meðalhitastigi við upphaf iðnvæðingar ef ríki standa við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsáttmálanum. Óheft losun gæti haft í för með sér hlýnun um 3,7-4,8 gráður á þessari. Það hefði í skelfilegar afleiðingar í för með sér. 

Mynd með færslu
Vegfarendur á vélhjóli í Nýju-Delí í dag.  Mynd: EPA
Loftmengunin er slæm í Peking og hún er það líka í Nýju-Delhí

Stendur Ísland sína pligt? 

Ef horft er á þá losun sem við þekkjum og telst vera á okkar ábyrgð samkvæmt alþjóðasamningum, heildarlosun sem verður á Íslandi, sést að losun hér á landi jókst um 27% frá 1990 til 2014. Vegna aukinna stóriðjuframkvæmda er útlit fyrir að losunin aukist enn frekar á næstunni. Verði um 60% meiri en hún var 1990. Evrópusambandsríkin stefna langflest í þveröfuga átt. Árið 2015 var heildarlosun þeirra fimmtungi minni en hún var árið 1990. Þegar litið er til skráningarskýrsla sem ríkin skila reglulega inn til Loftslagsskrifstofu Sameinuðu þjóðanna sést að einungis tvö ríki hafa aukið losun sína meira en Ísland, á síðustu þremur áratugum, Kýpur og Malta. 

Tvíþætt markmið

Markmiðið sem Ísland hefur sett sér með Evrópusambandinu er tvíþætt. Það tekur annars vegar til losunar frá stóriðju og hins vegar annarrar losunar. Stóriðjan er ábyrg fyrir 40% þeirra gróðurhúsalofttegunda sem streyma frá Íslandi. Losun frá stóriðju er afgreidd í sérstöku viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Fyrirtækin kaupa heimildir fyrir losun sinni, heimildunum fækkar ár frá ári og þær verða dýrari. Fyrirtækin eiga tvo kosti, að kaupa heimildir eða taka til í eigin ranni. Markmiðið er að sameiginleg losun stóriðjufyrirtækja minnki um tæplega helming fyrir árið 2030, miðað við losun ársins 2005. Þetta þýðir að það skiptir ekki máli hvort kísilver er á Íslandi eða í Póllandi. Það sem skiptir máli er að losun frá stóriðju í Evrópu minnki í heild. Sumir færa rök fyrir því að það væri betra að hafa það á Íslandi. Hér er raforkan framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum en í Póllandi er hún að mestu framleidd með kolabrennslu. 

Ekki greitt fyrir losun á flugleiðum út úr Evrópu

Losun frá flugi milli landa innan Evrópu fellur undir sama viðskiptakerfi og stóriðjan. Talið er að losun frá flugsamgöngum aukist verulega á næstu árum, samkvæmt ICAO, samtökum flugfélaga sem sinna farþegaflugi, gæti losun á heimsvísu allt að því sjöfaldast fyrir árið 2050. Isavía gerir ráð fyrir því að árið 2030 komi 3,5 milljónir ferðamanna til landsins, flestir sennilega flugleiðina

Ameríkuflugið var upphaflega innan kerfisins líka. Bandaríkin og fleiri ríki utan Evrópusambandsins voru ósátt við fyrirkomulagið, sögðust ekki vilja greiða skatt til Evrópusambandsins. Vegna þessa ósættis var ákveðið að undanskilja flug frá Íslandi og Evrópusambandsríkjum til ríkja utan Evrópusambandsins  frá 2014 til 2016. Icelandair og Wow-air hafa því ekki þurft að greiða fyrir losun sem verður á flugleiðum til ríkja utan álfunnar í þrjú ár. Reglur ESB gera ráð fyrir að flugfélög sem fljúga til álfunnar greiði fyrir losun þessa árs, en óljóst er hvort af því verður. Áform eru um að setja á fót hnattrænt viðskiptakerfi fyrir flugfélög árið 2021. Samningur þess efnis var undirritaður í haust. 

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Árið 2014 skrifuðust 17% losunar hér á landi á landbúnað.

Ísland flýtur með í Kyoto

Hvað um þá losun sem ekki kemur frá stóriðju og millilandaflugi heldur samgöngum innanlands, sjávarútvegi og landbúnaði, til dæmis. Ísland tekur þátt í markmiði Evrópusambandsins í tengslum við Kyoto-bókunina um að árið 2020 verði sameiginleg losun ríkjanna 20% minni en hún var árið 1990. Markmiðið hefur þegar náðst en Ísland hefur ekki lagt lóð á vogarskálarnar til þess heldur einfaldlega flotið með, aukið losun sína um 7% eða meira. 

Telur að Íslandi verði ekki gefinn slaki

Ísland hyggst sömuleiðis eiga aðild að markmiði Evrópusambandsins fyrir árin 2020 til 2030, því sem samið var um í París. Það felur í sér að eftir 13 ár verði sameiginleg losun ríkjanna 40% minni en hún var árið 1990. Enn á eftir að ákvarða hvernig verkefninu verður skipt á milli aðildarríkja Evrópusambandsins. Að því loknu hefjast samningaviðræður sambandsins við Ísland og Noreg. Þeim lýkur sennilega á þessu ári eða því næsta. Hugi á von á því að Evrópusambandið geri stífar kröfur til Íslands.

„Það er nokkuð ljóst að ef það verður ekki 40% verður það ekki langt þar fyrir neðan.“

Þegar útfærslan liggur fyrir verður hægt að móta skýrari aðgerðaáætlun hér. Ráðuneytið bíður líka eftir skýrslu sérfræðinefndar, sem átti að verða tilbúin í fyrra. Hún tekur til þess hvaða aðgerða væri áhrifaríkast að grípa til og hvað þær kosta. Slík áætlun var fyrst gerð árið 2009, en hún er að einhverju leyti úrelt.  Hugi segir stjórnvöld þó ekki sitja aðgerðalaus meðan beðið er, áfram sé unnið að sóknaráætlun í loftslagsmálum. Hvort aðgerðir þar duga til að vega upp á móti aukinni losun verður að koma í ljós. 

Hvað ef ekki tekst að semja? 

 Ef ekki takast samningar við Evrópusambandið breytist staða Íslands verulega. Þá missa stóriðjufyrirtækin aðild sína að viðskiptakerfi ESB og Ísland verður upp á sitt einsdæmi að minnka heildarlosun um 40%. Það samræmist ekki þeim stóriðjuáformum sem eru á borðinu. 

Leiðrétting: Fréttamaður vanmat aukninguna, taldi hana hafa verið 40%. Tölur um losun frá kísilverum og vegna framleiðsluaukningar álvera benda aftur á móti til þess að losun aukist um 60% á næstu árum, miðað við heildarlosun 1990.