Losna ekki við eigin varabæjarfulltrúa

14.09.2017 - 14:48
Mynd með færslu
Æði sérstök staða er komin upp í sveitastjórn Mosfellsbæjar þar sem fulltrúar Íbúahreyfingarinnar losna ekki við eigin varabæjarfulltrúa. Fulltrúar flokksins óskuðu eftir því á fundi bæjarráðs í morgun að varabæjarfulltrúanum yrði veitt lausn frá störfum en meirihluti bæjarráðs hafnaði þeirri beiðni, meðal annars með vísan til álits bæjarlögmanns. Þar kemur fram að bæjarstjórn sé ekki heimilt að veita umræddum bæjarfulltrúa lausn frá störfum nema hann óski sjálfur formlega eftir því.

Í minnisblaði bæjarlögmannsins er aðdragandinn rakinn að snúnu máli. Þar kemur fram að varabæjarfulltrúinn, Jón Jósef Bjarnason, hafi lýst því yfir í opnu bréfi til bæjarstjórnar á Facebook-síðunni Íbúar í Mosfellsbæ í júli síðastliðnum að hann segði sig frá varabæjarfulltrúaembættinu. Svipuð melding hafi komið fram í bæjarblaðinu Mosfellingi í lok júní.

Jón Jósef vildi reyndar ekki einu sinni vera á lista Íbúahreyfingarinnar fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar en það er önnur saga.  

Bæjarlögmaður segir í minnisblaðinu að Jón Jósef hafi ekki óskað formlega eftir því með erindi til bæjarstjórnar að vera leystur frá störfum. Hann fái þó enn greidd laun frá bænum vegna starfa sinna sem varabæjarfulltrúi.  

Það sé því niðurstaða hans að á meðan Jón hafi ekki beint formlegu erindi til bæjarstjórnar, þar sem hann óskar eftir því að fá lausn frá störfum, sé bæjarstjórn ekki heimilt að veita honum lausn frá störfum.

Eftir að minnisblað bæjarlögmannsins hafði verið kynnt á fundi bæjarráðs lagði fulltrúi Íbúahreyfingarinnar fram tillögu en þar kemur meðal annars fram annars að niðurstaða lögmannsins þýði að Jón Jósef héldi áfram að „hirða laun úr bæjarsjóði þrátt fyrir að sinna ekki skyldum sínum sem varabæjarfulltrúi,“ en hann hafi tvígang sýnt það í verki að hann væri hættur með því að sinna ekki fundarboðunum. 

Lagt var til að bæjarstjórn sendi honum ábyrgðarbréf þar sem vísað væri í opinberar yfirlýsingar hans um afsögn og hann beðinn að staðfesta hana eða bera til baka. Geri hann það ekki muni bæjarstjórn líta svo á að fyrrgreindar tilkynningar feli í sér afsögn hans.

Meirihlutinn felldi þessa tillögu - bæjarstjórn væri ekki heimilt að veita Jóni Jósef lausn frá störfum. Í bókun Íbúahreyfingarinnar í framhaldinu er harmað að bæjarráð skuli ekki sjá ástæðu til að leiða þetta mál til lykta. „Með aðgerðarleysi sínu bregst ráðið því hlutverki sínu og sviptir M-lista um leið þeim rétti að hafa starfandi varabæjarfulltrúa.“ 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV