Lokkandi stef á lygnum værðarsjó

Fjallaloft
 · 
Gagnrýni
 · 
Moses Hightower
 · 
Plata vikunnar
 · 
Poppland
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Menningarefni

Lokkandi stef á lygnum værðarsjó

Fjallaloft
 · 
Gagnrýni
 · 
Moses Hightower
 · 
Plata vikunnar
 · 
Poppland
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
17.06.2017 - 11:17.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland, .Plata vikunnar
Fimm ár eru liðin frá síðustu plötu Moses Hightower en Fjallaloft er þriðja plata þessarar um margt sérkennilegu sveitar. Tónlistin er sem fyrr einkar áhlýðileg en um leið lúmskt furðuleg. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.  

Hann er dálítið magnaður, hljóðheimurinn sem Moses Hightower býr yfir. Ég skil vinsældir sveitarinnar, tónlistin er aðgengileg án þess að vera ódýr, það er djúpt á þessu og lögin eru framreidd af fyrsta flokks tónlistarmönnum. Það sem gefur sveitinni hins vegar aukna vigt er að hún er um leið pínu torkennileg. Lykilinn er þetta „pínu“, það er aldrei farið offari hvað sýrustigið varðar. Titillag plötunnar er eiginlega besta dæmið um þetta. Lagið rúllar af stað með píanóleik og söng þar sem kerskinn texti er viðhafður. Trommusláttur og hljóðfæraleikur allur með miklum sóma – en svo brestur á með viðlagi. Undarleg rafhljóð gera vart við sig, falsettan er skrúfuð í botn og um leið lúrir undir undarlegur bassasöngur. Taktur verður undarlegur og höktandi og svo stoppar viðlagið allt í einu. Eðlilegt rennsli hefst á ný, ja, svona meira og minna.

Erfitt að naglfesta

Ég fór að hugsa um hvernig hægt er að lýsa tónlist Moses Hightower, með erlendum samanburði og innlendum. Í Bretlandi á níunda áratugnum leiddi Everything But the Girl ákveðna senu, sem samanstóð af fólki sem hafði rætur í síðpönki en var að leika sér með djassað popp. Tónlistin hér er vissulega djassskotin en forsendur í raun öfugar. Sprenglærðir hljóðfæraleikarar sem eru meira en viljugir að búa eitthvað til sem erfitt er að naglfesta (önnur dæmi: Hjaltalín, Steely Dan). Spilverkið dúkkar líka alltaf upp er ég hlusta, þar fór hópur hæfileikafólks sem hafði linnulausa sköpun sem dagsskipun en náði á sama tíma eyrum fjöldans og var spiluð í útvarpi lon og don. Sama er uppi á teningnum hér. Lögin rúlla í þessum fasa sem ég hef lýst, eyrnanuddandi en alltaf með nægilegum skammti af furðukryddi. Eftir miðbikið verður stemningin reyndar nokkuð eintóna, eftir nokkuð kröftugt upphaf minna lögin í seinni hálfleiknum einhvern veginn hvert á annað og það reynir dálítið á þolinmæðina undir rest.  

Skemmtilegir textar

Moses Hightower (Daníel Friðrik Böðvarsson, Magnús Trygvason Eliassen, Andri Ólafsson og Steingrímur Karl Teague) á þá lof skilið fyrir afar skemmtilega texta sem þeir tveir síðastnefndu semja. Hér er glás af skemmtilegum hendingum. Hér eru nokkrar, veiddar upp á sæmilega tilviljanakenndan hátt: „Blika stjörnur bast og tvist, urtubarn í útskersvist“, „Þegar að þér steðja ýmis mál, úlfúðleg og þver, og allt virðist baklæst, stál í stál, er stundaraflausn fáanleg hjá mér“, „„Hæ, aftur, manstu ekki eftir mér?“ fékk halastjarnan sagt við Júpíter. „Býðurðu mér heim? Mér sýnist við jú vera bæði geim.““.

Fjallaloft er nokkurs konar safnverk, tekin upp á rúmlega tveggja ára tímabili í ýmsum hljóðverum og með aðkomu fjölda manna. Heilsteypt er hún þrátt fyrir það, gerðarlegt verk sveitar sem stendur „á írónískan máta beggja vegna sólarlags.“

Tengdar fréttir

Tónlist

Moses Hightower - Fjallaloft

Tónlist

Stemningsríkt rokk í ástríðufullum ham

Menningarefni

Bræður tveir í hefndarhug

Tónlist

Fjarrænt, fumlaust og feykisvalt