Lokanir geta reynst ferðalöngum dýrar

11.05.2017 - 12:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vegagerðin hefur aflétt akstursbanni á Suðurlandi um Þjóðveg eitt en varar ökumenn við því að fara um svæðið á húsbílum enda er og verður þar bálhvasst í dag og á morgun. Lokanir gerðu það að verkum að margir ferðamenn komust ekki leiðar sinnar og gátu ekki nýtt sér gistingu sem þeir höfðu pantað og í sumum tilfellum borgað fyrir.

Á sjötta tug í fjöldahjálparmiðstöð

Lokun milli Freysness og Jökulsárlóns var aflétt klukkan tíu í morgun en áður hafði vegurinn undir Eyjafjöllum verið opnaður. Rauði krossinn opnaði fjöldahjálparmiðstöð í Vík í Mýrdal í gærkvöld. Á sjötta tug ferðalanga leitaði skjóls í miðstöðinni, allt erlendir ferðamenn sem urðu innlyksa. Fólkið fékk teppi, dýnur eða bedda til að sofa á og í morgunsárið var boðið upp á kaffi og brauð.

Gestir létu ekki sjá sig en aðrir komu í staðinn

Veður og lokanir settu ferðaáætlun margra úr skorðum. Á Hótelinu Smyrlabjörgum í Suðursveit, austan við lokanirnar, vantaði 13 gesti sem höfðu bókað gistingu í nótt. Í staðinn knúðu álíka margir dyra sem voru strand og komust ekki í vesturátt.

Hótel Skaftafelli í Freysnesi tók hins vegar að móti ferðamönnum sem urðu innlyksa á milli tveggja lokana. Þar er Anna María Ragnarsdóttir staðarhaldari. „Auðvitað kemur þetta fólk á þá staði sem eru opnir. Bæði til þess að fá húsaskjól og koma bílunum sínum í skjól þegar verður hvass,“ segir Anna.

Gengur misjafnlega að afbóka

Aðspurð um hvernig ferðamenn upplifi að verða strand á milli tveggja lokana á þjóðvegi 1 segir hún. „Það fyrsta sem fer í gegn hjá fólki sem á bókaða gistingu annars staðar er hvernig mönnum gengur að afbóka og breyta ferðaplönum. Segjum til dæmis að gestur sem átti bókaða gistingu á Höfn sá fram á það að vera stopp hér og eiga svo kannski bókaða gistingu á Egilsstöðum í kvöld.“ Hún segir að í sumum tilfellum tapi ferðamenn fé sem þeir hafi greitt fyrir gistingu. „Þeir sem bóka í gegnum booking.com og expedia.com eða þessar bókunarvélar þeir kannski tapa því. Þess vegna skiptir það fólk oft miklu máli að komast í gegn en þegar menn útskýra bæði veðurhæð og annað þá eru menn guðsfegnir að fara ekki í gegn," segir Anna.

Enn vetrarfæri á fjallvegum

Loka þurfti þjóðveginum undir Hafnarfjalli stutta stund rétt fyrir hádegi meðan unnið var að því að ná upp tengivagni sem þar valt. Ekki er færi fyrir sumardekk á fjallvegum á Vestfjörðum og sama gildir um á Öxnadalsheiði en rúta lenti í vandræðum í Bakkaselsbrekku í morgun. Á Austurlandi er sömuleiðis vetrarfæri á Möðrudalsöræfum og á Fjarðarheiði. Áfram verður hvasst á Suðurlandi og varasamt fyrir húsbíla. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni á Höfn er talið að þjóðvegur 1 verði opinn í dag en óvíst er með morgundaginn. 

 

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV