Loka þjóðveginum undir Eyjafjöllum klukkan 14

10.05.2017 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vegagerðin hefur lokað þjóðvegi eitt frá Kirkubæjarklaustri að Jökulsárlóni vegna óveðurs og sandfoks og veginum undir Eyjafjöllum verður lokað klukkan tvö. Veðrið hefur náð hámarki á Vestfjörðum en það á eftir að ná hámarki með suðurströndinni.

Þjóðvegi eitt var lokað frá Kirkubæjarklaustri að Jökulsárlóni klukkan ellefu í morgun. Þar er mjög hvasst, eins og víðast hvar á landinu og hætta á sandfoki. Hviður hafa víða farið vel yfir 35 metra á sekúndu og hefur lögreglan hvatt fólk til að festa hluti niður. Á Höfn í Hornafirði fauk trampólín af stað í morgun. 

50 metrar á sekúndu

Á Vestfjörðum hafa hviður náð hraða upp í 50 metra á sekúndu. Veðurofsinn hófst þar í nótt og bæði Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði eru ófærar. Á Gemlufallsheiði er snjór og krapi og þæfingur á Steingrímsfjarðarheiði.

Á láglendi er víðast hvar greiðfært á vegum. Á Austurlandi er snjór og krapi á Fjarðarheiði og hafa bílstjórar í átta stórum rútum, sem komu með ferjunni Norrænu til Seyðisfjarðar í gær, ekki treyst sér yfir heiðina í morgun vegna hvassviðris. Um 300 farþegar, sem ætluðu að ferðast með rútunum um Austurland í dag, hafa því haldið sig á Seyðisfirði.

Fólkið sem er flest frá Þýskalandi en einnig Danmörku, Færeyjum og Finnlandi náði að skoða Mývatn í gær en fer aftur af landi brott með Norrænu í kvöld. Fjarðarheiði milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða er ekki lokuð en ákveðið var að bílstjórarnir skyldu ekki leggja á heiðina enda sumir óvanir að aka í hálku og krapa. Þá munu þeir vera í lélegri æfingu við að setja keðjur undir rútur sínar. 

Ekki siglt frá Eyjum en flug á áætlun

Farþegaferjan Baldur hefur ekki getað siglt frá Vestmannaeyjum í dag en samkvæmt upplýsingum frá Eimskipi er þó ekki útséð með ferðir í dag. Stöðugt sé fylgst með ölduhæð í Landeyjahöfn en ferjan getur ekki siglt til Þorlákshafnar. Athugað verður með ferð frá Vestmannaeyjum nú fljótlega eftir hádegi. 

Flugfélag Íslands heldur líklega áætlun til Egilsstaða og Akureyrar í dag, nema spá Veðurstofunnar um ókyrrð breytist. Flug til Ísafjarðar hefur legið niðri í dag og næstu upplýsingar um hvort flogið verður þangað verða veittar klukkan hálf tvö.

Engin útköll

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg hafa björgunarsveitir ekki fengið nein útköll enn sem komið er og segir Þorsteinn G. Gunnarsson upplýsingafulltrúi að svo virðist sem fólk hafi tekið mark á viðvörunum um vont veður og ófærð.

Hámarkinu ekki náð alls staðar

Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofunni, segir að veðrið hafi náð hápunkti á landinu norðvestanverðu.

„Þar er aðeins byrjað að draga úr vindi en það er að aukast vindur við suðurströndina og það má búast við að það nái þar hámarki seinni partinn í dag,“ segir Helga. 

Stormur verður á Suðurlandi næstu daga.

„Það verður á suðurströndinni, þarna undir Eyjafjöllum og í Öræfasveitinni má búast við því að það verði stormur alveg fram eftir föstudegi. Annars staðar á landinu verður hægari vindur, 10-18 metrar á sekúndu og fremur svalt í veðri,“ segir Helga.