Lögum um gagnaver verður breytt

10.09.2010 - 12:43
Mynd með færslu
Ríkisstjórnin hyggst leysa þann vanda sem upp er kominn með uppbyggingu gagnavera hér á landi. Skattalögum verður breytt til að jafna samkeppnisstöðu Íslands og annarra Evrópuríkja.

Fram hefur komið í fréttum að uppbygging Gagnavera hér á landi sé komin í óvissu vegna þeirra skattaregna sem gilda hér á landi. Fullyrt er meðal annars að stórfyrirtækið IBM hafi dregið sig úr uppbyggingu gagnavers Verne holding á gamla varnarsvæðinu í Keflavík af þessu sökum.

Steingrímur J Sigfússon, fjármálaráðherra, hefur sagt að flókið sé að jafna stöðuna. Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, segir nú að búið sé að finna lausn. Fjármálaráðherra hafi í gær sent bréf til fyrirtækja á sviði gagnavera. Þar komi fram að samkeppnisstaða þeirra verði jöfnuð og unnið sé að útfærslum að því. Unnið sé að því í samráði við hagsmunasamtök gagnavera.

Katrín segir mikið í húfi. Æskilegt sé að gagnaver byggist upp hér. Þetta sé spennandi hátækniiðnaður sem hafi gríðarleg margfeldisráhrif hvað varðar þjónustu við þau.