Lögregla réðist gegn mótmælendum í Rotterdam

12.03.2017 - 02:28
Dutch riot police charges after riots broke out at a pro Erdogan demonstration outside the Turkish consulate in Rotterdam, Netherlands, Sunday, March 12, 2017. Turkish Foreign Minister Mevlut Cavusoglu was due to visit Rotterdam on Saturday to campaign
 Mynd: AP
Óeirðalögregla í Rotterdam beitti í nótt háþrýstidælum, hundum og lögregluliði á hestum til að leysa upp hörð og fjölmenn mótmæli tyrkneskra ríkisborgara þar í borg. Um 1.000 manns söfnuðust saman við ræðismannsskrifstofu Tyrklands í Rotterdam síðdegis og í kvöld, til að sýna tyrkneskum stjórnvöldum stuðning í verki eftir að þotu utanríkisráðherra Tyrklands var synjað um lendingarleyfi á flugvelli borgarinnar, þar sem hann hugðist ávarpa kosningafund. Kosningafundurinn var einnig bannaður.

Mótmælin voru lengst af friðsamleg, en þegar fjölskyldumálaráðherra Tyrkja, Fatma Betül Sayan Kaya, var meinað að ávarpa mótmælendur og vísað úr landi í lögreglufylgd í framhaldinu hitnaði fólki í hamsi.

Borgarstjórinn í Rotterdam, Ahmed Aboutaleb, segir lögreglu hafa freistað þess að leysa upp nokkra hópa óróaseggja laust eftir miðnætti að staðartíma, og fá fólk til að snúa til síns heima. Sagði hann ástandið heldur hafa lagast eftir það. Tíðindamaður AFP fréttastofunnar í borginni segir aftur á móti að mótmælendum sé aftur farið að fjölga, aukinn hiti farinn að hlaupa í mannskapinn og lögreglan aftur kominn á stjá.