Logi: Þeir sem minna mega sín sitja eftir

12.09.2017 - 19:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þeir sem minna mega sín sitja eftir í fjárlagafrumvarpinu, segir formaður Samfylkingarinnar. Nýta hefði átt tækifærið í meiri uppbyggingu, segir formaður Framsóknar. Fjárlagafrumvarpið er nýkomið úr prentun og því hefur stjórnarandstöðunni eins og öðrum ekki gefist tími til að rýna djúpt í það. 

„Þetta er áframhald á fjármálaáætlun sem við gagnrýndum harðlega,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. „Ráðherrann ætlar að halda sig við hækkun á virðisauka, virðist vera sama um þá gagnrýni að landsbyggðin muni líða fyrir það. Það eru auknar tekjur sem við bentum á að þær yrðu miklu meiri. Afgangurinn er umtalsverður. Og við höfum talið að það sé skynsamlegra að nýta hagvaxtartímann í að fara í uppbyggingu, meiri uppbyggingu, í heilbrigðismálum, menntamálum, samgöngumálum, tryggja byggð hringinn í kringum landið, Ísland er sterkast þegar við erum öll á sama stað.“

Ótrúleg skammsýni segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, um frumvarpið. Allt of litlu sé varið til menntamála, til dæmis háskóla: „Við skiljum heilbrigðiskerfið eftir og allt velferðarkerfið. Við ætlum ekki að gefa öldruðum tækifæri til þess að vinna án þess að tekjur skerðist of mikið. Öryrkjar sitja eftir. Sama skattastefna sem mun ýta undir ójöfnuð. Fjölskyldufólk verður skilið eftir og fólk á húsnæðismarkaði, erfiðum, mun hrekjast áfram og áfram.“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, segir að við fyrstu sýn virðist henni að verið sé að lögfesta þá sveltistefnu sem stjórnarandstaðan hafi mótmælt. Hún segir enn of litlu fé varið í mörg málefni: „Ég nefni sérstaklega háskólana og framhaldsskólana.“ Að auki sé ákalli almennings um stóraukin framlög til heilbrigðismála ekki svarað.

Björn Leví Gunnarsson, fulltrúi Pírata í fjárlaganefnd Alþingis, segir að ekkert bætist í heilbrigðismálin frá því sem Píratar, Samfylkingin og Vinstri-græn hafi náð í gegn í fjárlagaferlinu á Alþingi fyrir ári síðan.