Loftslagsbreytingar raska vorkomunni

23.03.2017 - 16:13
Mynd með færslu
Vorlaukar reyna að brjótast í gegnum snjóinn í lok mars.  Mynd: Anna Kristín Jónsdóttir  -  RÚV
Vorjafndægur var í vikunni og þá er vorið komið samkvæmt almanakinu. Farfuglar, fiðrildi og fagrir vorlaukar hafa markað vorið á norðurhveli, en hefðbundinn komutími vorsins er nú sveipaður óvissu vegna loftslagsbreytinga.

Þegar svölur koma aftur um langan veg frá Suður-Afríku þá er veturinn liðinn í Skotlandi  og vorið er komið. Þegar trönurnar stíga dans við vötn og tjarnir þá er vorið komið í Svíþjóð og þegar maríuerlan er komin þangað þá er réttur tími til að sá korninu, samkvæmt fornri alþýðuspeki.

En breytingar eru nú á hefðbundnum tíma árstíðanna vegna  meiri hita, vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum. Svölurnar koma nú 20 dögum fyrr á vorin en þær gerðu um 1970. Farandfiðrildi koma 13 dögum fyrr en þau gerðu fyrir einni öld og vespur rúmri viku fyrr. Vorlaukar í skosku hálöndunum blómstra viku fyrr en þeir gerðu fyrir áratug. Froskar og fiskar hrygna fyrr, brum trjánna springa út, kastaníutré og þyrnar blómstra og skordýrin fara á stjá  viku eða hálfum mánuði fyrr en þau gerður áður.

Vísindamenn segja ljóst að blómstrun, tímgun og farflug hafi færst til. Ástæðan sé lofmengun sem menn losa aðalega koltvísýringur frá bílum og verksmiðjum. Heitara loftslag  sé að raska komu vorsins og  þeirri reglu sem við höfum þekkt í náttúrunni.

 

Þorvaldur Friðriksson
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV