Lochte tjáir sig ekki um kæru

epa05471687 Ryan Lochte of the US prepares himself before competing in the men's 200m Individual Medley (IM) Heats during the Rio 2016 Olympic Games Swimming events at Olympic Aquatics Stadium at the Olympic Park in Rio de Janeiro, Brazil, 10 August
 Mynd: EPA
Ryan Lochte, sundmaðurinn bandaríski, ætlar ekki að tjá sig um þá ákvörðun lögreglunnar í Brasilíu að kæra hann fyrir rangar sakargiftir. Lochte laug því að hann og félagar hans hefðu verið rændir af byssumanni á Ólympíuleikunum í Ríó.

Þetta kemur fram á vef BBC sem fékk þau skilaboð frá lögmanni sundmannsins að hann myndi hvorki veita viðtöl né senda frá sér yfirlýsingu vegna kærunnar.

Lochte var farinn frá Brasilíu áður en lögreglu tókst að yfirheyra hann vegna atviksins. Hann hefur fengið harða útreið í fjölmiðlum vestanhafs - þeir telja hann hafa sýnt hegðun hvíts forréttindapésa sem hafi nýtt sér neyð gestgjafanna til að sleppa.

Lochte og þrír félagar hans sögðust hafa verið rændir af vopnuðum byssumanni sem hefði þar að auki sýnt þeim lögreglumerki.  Frásögn þeirra vakti óskipta athygli enda hafði mikið verið fjallað um spillingu og glæpi í Brasilíu í aðdraganda leikanna. Seinna kom þó í ljós að þeir höfðu lent í útistöðum við næturvörð á bensínstöð eftir að hafa brotið salernishurðina.

Lochte hefur viðurkennt að hafa verið við skál og beðist afsökunar á framkomu sinni. Hann þarf núna að ákveða hvort hugur fylgi máli og hann fari til Brasilíu og mæti þar örlögum sínum. Hann gæti átt yfir höfði sér 18 mánaða fangelsi en hægt er að rétta í málinu að honum fjarstöddum. 

BBC segir að framsalssamningur sé í gildi milli Bandaríkjanna og Brasilíu en síðarnefnda þjóðin hafi ekki virt hann. Og því gætu bandarísk stjórnvöld nú kosið að svara í sömu mynt.

Fjölmargir styrktaraðilar hafa látið af stuðningi sínum við Lochte - þeirra mikilvægastur sennilega sundrisinn Speedo. 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV