Ljúka við sameiningu Arnarlax og Fjarðalax

23.06.2016 - 16:26
Arnarlax Laxeldi kvíar sjókvíar Vestfirðir Bíldudalur Arnarfjörður Fiskeldi Suðurfirðir
 Mynd: Jóhannes Jónsson  -  ruv.is
Stefnt er að því að ljúka sameiningu fiskeldisfyrirtækjanna Arnarlax og Fjarðarlax í lok mánaðarins. Framkvæmdastjóri Arnarlax telur að með sameiningunni geti fyrirtækið eflt frekari uppbyggingu og um leið borið sig saman við sambærileg fyrirtæki í iðnaðinum.

Skrifaðu undir samkomulag í maí

Forsvarsmenn fiskeldisfyrirtækjanna Arnarlax á Bíldudal og Fjarðarlax á Tálknafirði skrifuðu undir samkomulag um sameiningu fyrirtækjanna í lok maí undir merkjum Arnarlax og er gert ráð fyrir að sameiningarferlinu ljúki undir lok júní.

Stórir fjárfestar

Salmar, eitt stærsta laxeldisfyrirtæki í heimi, verður í hluthafahópi sameinaðs fyrirtækis Arnarlax sem og kjölfesturfjárfestir Fjarðalax og feðgarnir Matthías Garðarsson og Kristian Matthíasson. „Það þýðir einfaldlega það að það verður sterkt og öflugt fiskeldisfélag sem getur borið sig saman við önnur sambærileg félög hérna í kringum okkur. Noregi og Færeyjum. Svo þetta kemur bara til með að efla uppbygginguna svo hún gengur hraðar fyrir sig í rauninni,“ segir Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax.

Nú þegar með eldi í þremur fjörðum 

Sameinað fyrirtæki verður með eldi í Arnarfirði, Tálknafirði og Patreksfirði. Fyrirtækið hefur leyfi fyrir 8.000 tonnum og eru umsóknir fyrir frekara eldi í ferli og er gert ráð fyrir því að þessi leyfi verði tvöfölduð innan árs og stefnir í rúmlega 20.000 tonna framleiðslu árið 2020.

Stórt sláturhús á Bíldudal

Með sameiningunni er fyrirhugað að hafa eitt stórt sláturhús á Bíldudal og hefur starfsmönnum, sem áður störfuðu við slátrun hjá Fjarðarlaxi á Patreksfirði, verið boðin áframhaldandi vinna á Bíldudal. Víkingur segir að fyrirtækið sé að fjárfesta í nýjum öflugum tækjum sem standast alþjóðlegan samanburð sem verði þá staðsett í þessu sláturhúsi á Bíldudal sem verður mjög tæknilegt og fullkomið.

Auka við slátrun

Það sem eftir er árs er gert ráð fyrir að slátrað verði 5.000 tonnum og á næsta ári er gert ráð fyrir því að fyrirtækið slátri yfir 10.000 tonnum og velti tæpum sex milljörðum. Arnarlax er stærsta laxeldisfyrirtæki á landinu og segir Víkingur að starfsmenn séu orðnir yfir hundrað. Með sameinuðu fyrirtæki verður löggð áhersla á að stjórnendur verði fyrir vestan og höfustöðvarnar verða á Bíldudal. Forstjóri félagsins verður Kristian Matthíasson og hefur aðsetur á skrifstofu félagsins á Bíldudal.

Hefur áhrif á sveitarfélagið

„Miðað við áformin komum við bara til með að auka starfsfólki verulega,“ segir Víkingur. Nú er einnig verið að ráða í starf í Bolungarvík þar sem til stendur að byggja upp aðra starfsstöð fyrirtækisins. Ljóst er að aukin umsvif með sameiningunni hafa áhrif á sveitarfélagið Vesturbyggð. „Það  þarf að fara í alls konar uppbyggingu á innviðum svo að hlutirnir gangi upp. Og það er það sem vil viljum taka þátt í og leggjum gríðarlega áherslu á,“ segir Víkingur. Leitast verður eftir því að vinna náið með sveitarfélögum og stjórnvöldum að uppbygginu innviða og tengingu byggða sem eitt atvinnusvæði segir jafnframt í tilkynningu frá fyrirtækinu. 

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV