Lítt hrifin af uppbyggingu vegna ísganga

11.05.2017 - 12:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Umhverfisstofnun er ekki mjög hrifin af fyrirhugaðri uppbyggingu við Langjökul þar sem ferðaþjónustufyrirtækið Into the Glacier vill byggja 300 fermetra skemmu, koma fyrir tveimur 20 feta gámum og reisa 150 fermetra móttökuhús. Stofnunin telur það ekki í sátt við umhverfið að áætla þetta þjónustusvæði við árbakka og birkiskóg.

Into the Glacier býður upp á ferðir þar sem ísgöngin í Langjökli eru heimsótt. Fyrirtækið áætlar að nýta 13 hektara svæði úr landi Húsafells fyrir aðstöðu undir tæki og tól og 1,5 hektara svæði fyrir starfsemi fyrirtækisins.

Þetta svæði hafði áður verið skilgreint sem frístundabyggð en verður breytt í verslunar-og þjónustusvæði gangi hugmyndir bæjaryfirvalda að breytingum á aðalskipulagi eftir. 

Umhverfisstofnun segir í umsögn sinni að svæðið liggi við mörk friðlýsts náttúruverndarsvæðis Húsafellsskógar. Skógurinn hafi verið friðlýstur 1974 en verndargildi svæðisins felist í allvíðáttumiklum birkiskógi sem sé vinsælt útivistarsvæði.  Þá bendir stofnunin á að fjarlægð frá sjó annars vegar og nágrenni við lindir og ár hins vegar geri hann að sérstæðu búsvæði.

Umhverfisstofnun telur að fyrirhuguð uppbygging á skemmu og bílastæðum ásamt gámum falli ekki vel að nánasta umhverfi. Þannig verði hlið við hlið fíngerður birkiskógur og áætlað þjónustusvæði með farartækjum og viðhaldstækjum sem mögulega fylgi mengunarhætta. 

Uppbyggingin mun skyggja á útsýni þeirra sem fara bæði til suðurs og austurs. Þetta eigi frekar heima nær byggð þar sem svipaðar byggingar og skemmur séu fyrir hendi. „Að mati Umhverfisstofnunar er það ekki í sátt við umhverfið að áætla ofangreint þjónustusvæði í nágrenni við árbakka og birkiskóg.“

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV