Lítið traust til nýrrar ríkisstjórnar

08.04.2016 - 11:58
Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson  -  RÚV
Ný ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks nýtur lítils trausts í nýrri könnun sem Maskína gerði í gær. Um 26% ber mjög mikið eða fremur mikið traust til nýju stjórnarinnar en um 66% bera fremur lítið eða mjög lítið traust til hennar.

Um 26% bera mikið traust til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra en innan við 20% bera mikið traust til hins nýja forsætisráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar. Í ljós kom að því meira sem fólk segist hafa fylgst með atburðum síðustu daga því minna traust ber það til stjórnarinnar og forystumanna hennar. 

Stuðningsmenn stjórnarflokkanna bera að vonum meira traust til ríkisstjórnarinnar en aðrir, 84% þeirra sem segjast framsóknarmenn treysta Sigurði Inga vel og rúmlega helmingur sjálfstæðismanna. Karlar treysta honum frekar en konur og þá dvínar traustið eftir því sem kjósendur eru yngri. 81% kjósenda Sjálfstæðisflokks ber mikið traust til nýrrar stjórnar og 91% kjósenda Framsóknarflokksins. 

2438 svöruðu könnuninni, sem gerð var í gær og dag á netinu og voru gögn vigtuð með tilliti til aldurs, kyns og búsetu. 

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV