Listin mótar heimin

03.05.2017 - 17:00
Gunnar J. Árnason listheimspekingur hefur sent frá sér bók með stóran titil. Bókin heitir Ásýnd heimsins - Um listir og fagurfræði í hugmyndaheimi nútímans. Þar rekur Gunnar hugmyndastrauma allt aftur til upplýsingaaldar og gerir grein fyrir hugmyndum fjölda hugsuða um hlutverk listanna og fagurfræði. Gunnar var gestur Víðsjár og hér fyrir ofan má heyra ítarlegt viðtal við hann um bókina.

Listkerfi nútímans 

Þó að listir hafi fylgt manninum allt frá upphafi má líkast til rekja það sem stundum er kalla „listkerfi nútímans“ allt aftur á átjándu öld. Þá koma til dæmis fyrst fram listasöfn sem opin eru almenningi og listin er rækilega aðgreind öðru handverki. Stigveldi hennar og söguleg skoðun tekur á sig mynd. 

Tengsl samtímans, hugmynda og listar

Gunnar segist í bók sinni vilja kanna hlutverk listarinnar í samtímanum. „Það er mikilvægt að spyrja hvort listin hafi haft eitthvað fram að færa við að móta okkar hugmyndaheim og nútíma. Bæði út frá sjónarhóli listamanna og almennings ætti að vera áhugavert að kanna hvort listin geti lagt eitthvað til þegar litið er til þeirra átaka og áskorana sem við eigum við að etja í samtímanum,“ segir Gunnar. 

Auðugur garður

„Á þessu tímabili, frá því á upplýsingaöld, sjáum við ótrúlega mikla flóru í hugmyndum um hlutverk listarinnar. Það er gaman að sjá hvernig þeir hugsuðir sem ég fjalla um hafa tekist á við listirnar á ólíkan hátt. Ég reyni að bregða upp svipmyndum að þessum fjölbreyttu höfundum.“

Safnast þegar saman kemur

Gunnar J. Árnason hefur á undanförnum árum kennt þessa hlið hugmyndasögunnar í Listaháskólanum. Hann segir að það hafi verið tímabært að setja þetta efni niður í bók. 

 

„Ég hef orðið var við talsverðan áhuga listamanna á heimspeki og margir nemendur er mjög áhugasamir um þetta, en að sama skapi er þetta mjög yfirgripsmikill og flókinn heimur.“

Þessi áhugaverða saga ætti nú að skýrast með aðgengilegri bók á íslensku. Viðtalið við Gunnar J. Árnason úr Víðsjá má heyra hér í spilaranum að ofan.  

 

Mynd með færslu
Guðni Tómasson
dagskrárgerðarmaður
Víðsjá
Þessi þáttur er í hlaðvarpi