Líkur Anítu aukast á að komast áfram

10.08.2017 - 16:43
epa03829408 Kenya's Eunice Jepkoech Sum celebrates after winning the women's 800m final at the 14th IAAF World Championships at Luzhniki stadium in Moscow, Russia, 18 August 2013.  EPA/SERGEI ILNITSKY
 Mynd:  -  EPA
Eunice Jepkoech Sum frá Keníu hleypur ekki í undanrásum 800 m hlaups kvenna á HM í frjálsum íþróttum í London í kvöld. Sum var sett í fimmta riðil undanrásanna og átti að hlaupa þar með Anítu Hinriksdóttur. Sum var ein þriggja hlaupara í riðli Anítu sem áttu betri tíma en Aníta.

Þrír fyrstu í hverjum riðli komast beint í undanúrslitin, en svo komast sex keppendur í viðbót áfram með bestu tímana, af þeim sem ekki voru þegar öruggir áfram.

Er fyrrverandi heimsmeistari

Sum hafði verið með einhverja flensu og versnaði í kalda veðrinu sem hefur við í Lundúnum síðustu tvo daga. Hún mun því af þeim sökum ekki hlaupa í undanrásunum í kvöld. Sum er einn besti 800 m hlaupari heims. Hún varð heimsmeistari í Moskvu 2013 og vann brons á HM 2015 í Peking.

Líkur Anítu á að komast í undanúrslit HM hafa þar með aukist. Þetta er annað heimsmeistaramótið í fullorðinsflokki sem Aníta keppir á. Hún þreytti frumraun sína á HM þegar hún keppti á HM í Peking 2015, en komst þá ekki áfram upp úr undanrásum.

Riðill Anítu verður ræstur kl. 19:01 og verður hlaupið sýnt beint á RÚV og á RÚV 2.

Mynd með færslu
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson
íþróttafréttamaður