Lífsgæðahjól valdsins sett af stað

29.06.2017 - 12:11
Kjararáð · Lestin · Pistlar · Menning
Halldór Armand fjallar um ákvarðarnir kjararáðs síðustu misseri og segir þær endurspegla risastórt valdakerfi sem snýst allt um strúktúr og form en ekki efnislegt inntak.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar: 

Ó kjararáð kjararáð kjararáð, hvar á maður að byrja? Vera enn einn álitsgjafinn sem dælir út vandlætingum og aðfinnslum sem gára vatnið eitt augnablik en hverfa svo undir yfirborðið og sökkva til botns. Því það er jú nákvæmlega það sem er á seyði einmitt núna, kjararáðsliðar svara ekki símanum þegar fjölmiðlar hringja og kjararáðsþegar - sem hefur tekist að snapa einhverja hundraðþúsundkalla á mánuði úr vasa almennings - bíða í spekt eftir því að fólkið í landinu finni sér eitthvað nýtt til þess að hneykslast á og gleymi þeirri staðreynd að valdastéttin beiti fáguðum aðferðum til þess að gulltryggja eigin hlunnindi og sérstöðu. Einhvern veginn vill maður frekar halda sig í heimi hugmyndanna en að drekka af þessum beiska kaleik.

Já, hvað á lítill álitsgjafi að taka til bragðs? Draga upp sverð íróníunnar í stíl bandarískra sjónvarpsþátta og skrifa háðskan pistil um hvað það hljóti að vera fínt að hafa kjararáðsliða heima hjá sér allan sólarhringinn, einhvern sem hefur völd til þess að endurskoða líf manns og úrskurða afturvirkt að tilveran hafi ekki verið nógu sanngjörn við mann síðasta árið og maður eigi þess vegna skilið eingreiðslu upp á 4,6 milljónir króna til þess að rétta aðeins úr kútnum. Já, væri það ekki ágætt ef við hefðum öll opinberan starfsmann sem við gætum alltaf leitað til og beðið um að endurskoða lífsgæði okkar? 

En nei, írónía er, eins og einhver sagði svo réttilega, sefandi söngur fugls sem hefur lært að elska búrið sitt. Hún gerir ekkert gagn annað en að heimila fólki að hlæja að eigin máttleysi. 

Sá veruleiki sem birtist í ákvörðunum kjararáðs undanfarnar vikur og mánuði endurspeglar það sem Vilmundur Gylfason kallaði samtryggingu valdastéttarinnar og í þeim kristallast jafnframt sú staðreynd að það er mun fleira sem sameinar stjórnmálamenn og annað valdafólk en sundrar því. Við sáum þetta til dæmis þegar fulltrúar allra þingflokka létu hafa eftir sér að þær hækkanir á launum Alþingismanna - sem hið gjafmilda Kjararáð færði þeim úr vasa skattgreiðenda af miskunn sinni fyrr í ár - væru „of háar“, eins og formaður VG sagði, eða „sjokkerandi“ eins og formaður Bjartrar framtíðar sagði, eða „úr öllum takti við það sem hefur verið að gerast í kjaramálum í landinu“ eins og formaður Sjálfstæðisflokksins sagði. Hvað gerðist síðan? Ekki neitt. Enginn gerði neitt, ja, nema reyndar forsetinn sem krýndi hugsun verki og afþakkaði launahækkunina eins og allir stjórnmálamenn með einhvern snefil af sómakennd og jafnvel örlitla tilfinningu fyrir lífi og hugsunum annarra hefðu gert. Hækkanirnar voru með öðrum orðum of miklar, en samt ekki nóg til þess að afturkalla þær. Þær voru of en um leið ekki of. Það var grátbroslegt að fylgjast með þessu. Má maður þá frekar biðja um Brynjars Níelssonaríska hreinskilni sem fannst launahækkunin „hið besta mál“. Hvað sem manni finnst um hans afstöðu verður hann að minnsta kosti ekki fundinn sekur um vitsmunaleg óheilindi í þessu máli eins og hinir.

Þær hækkanir á launum ríkisforstjóra og annarra embættismanna sem kjararáð úrskurðaði um fyrir helgi endurspegla svo risastórt kerfi þar sem allt snýst um form og strúktúr en ekkert inntak. Allir í valdastéttinni eru tengdir saman á einn eða annan hátt, starf þessa er sagt sambærilegt við starf hins, einn fylgir launum þessa og sá þriðji fylgir launum hins og svo framvegis. Í stuttu máli er þetta fólk sem helst í hendur á göngu sinni um aldingarð valdsins. Það býr jafnframt við þá sérstöðu að geta sent kjararáði bréf og fært rök fyrir nauðsyn þess að laun viðkomandi séu hækkuð. Og þegar einn hækkar, hækka allir. Lífsgæðahjólið er einfaldlega sett af stað.

Eftir að hafa skimað yfir nokkra úrskurði ráðsins er ljóst að embættismennirnir virðast eiga það sameiginlegt að hafa verið undir miklu álagi að undanförnu og telja sig því eiga rétt á hærri launum. Þannig kemur fram í bréfi ríkissáttasemjara að mikið álag hafi verið á embættið að undanförnu. Í bréfi forsetaritara er talað um aukin umsvif, aukið álag og ábyrgð og hvaða rökstuðning skyldi vera að finna í bréfi framkvæmdastjóra Fríhafnarinnar? Jú, aukin umsvif Fríhafnarinnar hafa kallað á aukna ábyrgð, álag og vinnu framkvæmdastjórans. Hvað segir í bréfi forstjóra Landsnets? Jú, vinnuálag hefur aukist svo mikið. Hvað segir forstjóri FME. Þú átt kollgátuna! Stóraukið álag og ábyrgð í starfi. Það er engu líkara en að sama manneskjan hafi skrifað öll þessi bréf og maður getur ekki annað en spurt sig: hvaða rannsókn fór fram á þessum fullyrðingum? Úrskurðir kjararáðs innihalda sama og engan rökstuðning, aftur og aftur er einfaldlega vísað til innra samræmis í ákvörðunum ráðsins, sem með öðrum orðum þýðir að þegar einn hækkar hækka allir, algjörlega óháð því hvort störf eru raunverulega sambærileg eða raunverulega jafnkrefjandi, og lesandinn fær ekki annað á tilfinninguna en að ráðið sé í raun einungis til málamynda.

Skyldi allt þetta fólk vera einu opinberu starfsmennirnir sem hafa staðið frammi fyrir breyttum aðstæðum og auknu vinnuálagi á síðustu misserum? Treystir sér einhver til að halda því fram? Í tilfelli forsetaritara kemur fram í úrskurði kjararáðs að sjálfur forsetinn hafi tekið undir þessa kröfu undirmanns síns með ýtarlegum rökstuðningi fyrir því að launakostnaður skattgreiðenda verði aukinn. Ætlar einhver að andmæla því? Hver ætti að gera það? Eiga aðrir starfsmenn ríkisins kost á annarri eins liðveislu í kjarabaráttu sinni? Mikið hlýtur valdsins koss að vera hlýr og innilegur. Svo má ekki gleyma því að hér er um ríkisstofnanir að ræða og ef álag og umsvif aukast svona ofboðslega eins og bréfin gefa til kynna væru eðlileg viðbrögð að efla þessar stofnanir og fólkið sem þar vinnur, en ekki hækka laun forstjórans í þeirri von um að hann vinni meira.

Svona skrúfar valdakerfið sjálft sig upp gegnum málamyndabananabatterí sem hefur ásýnd óháðs þriðja aðila en er það að sjálfsögðu ekki - enda meðlimir þess skipaðir af innstu koppum í búri valdsins - og niðurstaðan er sú að allir í opinbera valdastrúktúrnum eru núna komnir á stórkoslega góð laun, algjörlega óháð efnislegu inntaki eða mikilvægi starfanna. Nákvæmlega í því felst hin títtnefnda samtrygging; þetta snýst ekkert um hæfni eða getu eins og tíðkast á almennum vinnumarkaði, heldur einfaldlega að viðhalda sérstöðu tiltekinnar stéttar sem öllu ræður. Ætlar einhver að halda því fram að það að vera ráðuneytisstjóri í stóru ráðuneyti annars vegar og 23 ára aðstoðarmaður ráðherra hins vegar séu á einhvern hátt sambærileg störf? Hvað réttlætir það að forstjóri Fríhafnarinnar eða forsetaritari eða aðstoðarmaður ráðherra sé með þreföld laun hjúkrunarfræðings eða kennara svo við tökum klassísk dæmi? Eru þetta svona ofboðslega mikilvæg störf en það bara fattar það enginn nema kjararáð og fólkið sem vinnur þau? Nei, staðreyndin er einfaldlega sú að þetta eru ósköp venjuleg störf sem mjög margir gætu sinnt. Fólkið sem er í þessum störfum sinnir þeim örugglega eftir bestu getu og hefur mismikið að gera eins og gengur og gerist, en það er enginn heimsendir ef það sefur yfir sig eða tekur sér langa kaffipásu.

Svona hefur þetta eflaust alltaf verið og svona verður þetta áfram, ég geri mér grein fyrir því. En það sem færir manni raunverulegar áhyggjur er að eftir því sem sérstaða valdastéttarinnar eykst og laun hennar hækka, því meira vaxi samstaða hennar gegn almenningi, því skýrari verði víglínurnar milli almennings og kjararáðsþega. Þannig er jú mannlegt eðli, ekki satt? Eftir því sem hagsmunirnir eru meiri, þeim mun hatrammari eru varnirnar um þá. 

 

Mynd með færslu
Vefritstjórn
Lestin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi