Leynileg atkvæðagreiðsla um vantraust á Zuma

07.08.2017 - 14:30
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Atkvæðagreiðsla um vantraust á Jacob Zuma, forseta Suður-Afríku verður leynileg á þingi landsins. Hún fer fram á morgun. Talið er að nokkrir þingmenn Afríska þjóðarráðsins noti þá tækifærið og greiði atkvæði með vantrausti. Að sögn fjölmiðla í Suður-Afríku kom það nokkuð á óvart þegar Baleka Mbeti þingforseti tilkynnti í dag að atkvæðagreiðslan yrði leynileg.

Þrátt fyrir þessa ákvörðun er ekki talið að meirihluti sé fyrir því á þingi að lýsa yfir vantrausti á forsetann. Hann hefur verið við völd frá árinu 2009. Zuma hefur flækst í mörg spillingarmál á undanförnum árum, á sama tíma og efnahagur landsins hefur versnað og atvinnuleysi aukist. Zuma er orðinn 75 ára. Hann lætur af formannsembætti í Afríska þjóðarráðinu í desember næstkomandi og hættir sem forseti landsins fyrir kosningar árið 2019.