Leyfa gisti-og veitingastað á Langholtsvegi

16.03.2017 - 18:58
Mynd með færslu
 Mynd: ja.is
Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina Langholtsvegi 113. Eftir breytingu verður hægt að reka þar veitingahús og gististað. Gert er ráð fyrir 20 tveggja manna herbergjum á gistiheimilinu og veitingahúsi á jarðhæðinni.

Breytt deiliskipulag gerir ráð fyrir að húsið verði hækkað um eina hæð og að viðbótarhæðin verði inndregin þeim megin sem snýr út að Langholtsvegi. Efnalaug er á jarðhæð hússins í dag og tvær íbúðir á efri hæðinni. 

Töldu ferðamenn geta séð inn í svefnherbergi  

Breytt deiliskipulag mætti andstöðu hjá íbúum í næstu húsum og bárust nokkrar umsagnir þar sem meðal annars var lýst áhyggjum af aukinni umferð, aðgengi að bílastæðum og rútuumferð. Þá lýstu íbúar í Drekavogi sem er austanmegin við húsið og í raðhúsalengju hinum megin við Langholtsveg áhyggjum af því að gestir gistiheimilisins kynnu að geta séð inn í svefnherbergi þeirra. Nokkrir bentu einnig á að enginn hörgull væri á gistirými og veitingahúsum í næsta nágrenni og því væri ekki verið að uppfylla þörf á slíku. Þannig væri fyrirhugað að reisa eitt stærsta hótel landsins við Grensásveg. 

Karlakórinn Fóstbræður er með aðstöðu í húsinu Langholtsvegi 109-111, sem er fast við Langholtsveg 113, auk þess að leigja Léttsveit Reykjavíkur aðgang að aðstöðunni. Í umsögn frá kórnum er lýst áhyggjum af því að gestir hótelsins og veitingahússins taki stæði sem kórfélagar þurfi að hafa aðgang að. 

Umsagnir íbúanna voru teknar til umfjöllunar hjá skipulagsfulltrúa Reykjavíkur.  Í svörum skipulagsfulltrúa kemur fram að ekki geti fleiri gist á gistiheimilinu en 40 hverju sinni og ferðamenn notist frekar við almenningssamgöngur. Nú þegar séu fleiri bílastæði við húsið en í aðalskipulagi fyrir hús af þessari stærð í borgarhlutanum.

Langholtsvegur sé skilgreindur sem aðalgata í aðalskipulagi Reykjavíkur og því sé heimilt að vera með gististað við götuna. Þá sé hægt að stöðva rútur við gistiheimilið án þess að trufla umferð í götunni. Einnig sé heimilt samkvæmt aðalskipulagi að vera með veitingastað á jarðhæð hússins. Ekki sé gert ráð fyrir að umferð aukist mikið frá því sem nú er hjá efnalauginni. Almennt fylgi minni umferð gististöðum en íbúðabyggð.  

Hvað áhyggjur íbúa af því að gestir á gistiheimilinu geti séð inn í svefnherbergi þeirra segir í svörum skipulagsfulltrúa að húsin hinum megin við götuna séu í 40 metra fjarlægð þannig að því ætti ekki að vera mikil truflun af gestum úti á svölum á Langholtsvegi 113.  Í svari til íbúa í Drekavogi segir að inngangur fyrir gesti gististaðarins verði frá Langholtsveginum „og svalir á inndreginni þriðju hæð snúa einnig í þá átt. Því verður ekki séð að íbúar í Drekavogi 4a muni verða fyrir truflun af gististarfsemi í húsinu að Langholtsvegi 113“.

Í svari skipulagsfulltrúa um að engin þörf sé  á veitinga-og gististöðum í hverfinu segir að gistirýmum hafi fjölgað mikið miðsvæðis, sérstaklega í miðborginni. Öðru máli gegni um gististaði þar fyrir utan, til dæmis í Vogahverfi. „Gististarfsemi og ferðaþjónusta hefur einnig jákvæð áhrif eins og með því að ýta undir og styrkja verslun og þjónustu og auka mannlíf í borginni. Gististaðir og kaffihús af sambærilegri stærð í öðrum íbúðarhverfum í borginni hafa gefist vel og haft góð áhrif í þeim hverfum, t.d. gististaðir og kaffihús við Hrísateig og Laugalæk og Kaffi Vest á Hofsvallagötu.“.

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV