Léleg byggðalína veldur tjóni á Austurlandi

17.05.2017 - 13:02
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Næstum tveggja klukkustunda rafmagnsleysi varð á stóru svæði allt frá Kirkjubæjarklaustri til Vopnafjarðar í morgun. Lækka þurfti straum á kerjum Alcoa Fjarðaáls og ostur settist í tönkum MS á Egilsstöðum. Þá gat Landhelgisgæslan ekki fylgst með strandveiðibátum á stóru svæði. Rafmagnsleysið má rekja til atviks sem varð hjá Norðuráli á Grundartanga, hinum megin á landinu. Forstjóri Landsnets segir að þetta sýni hve mikilvægt sé að styrkja byggðalínuna sem flytur rafmagn milli landshluta.

Árrisulir ferðamenn þurftu að bíða eftir eldsneyti

Rafmagn fór af um klukkan sjö í morgun og kom aftur á víðast hvar rétt fyrir klukkan níu. Úthérað, Stöðvarfjörður og Breiðdalsvík komu síðast inn þegar liðið var á tíunda tímann í morgun. Á þessum tíma eru fyrirtæki að opna og ferðamenn að leggja af stað frá hótelum. Auður Ingólfsdóttir, hótelstjóri á Icelandair hótel Héraði á Egilsstöðum segir að þar hafi rétt tekist að hita kaffi áður en rafmagn fór en ekki náðst að steikja allan morgunmatinn. „Gestir tóku þessu með mesta rólyndi. Aðal áhyggjurnar voru af því hvar þeir ættu að taka bensín. Það er ótrúlegt hvað margt stoppar þegar rafmagnið fer. Tölvukerfið úti þannig að það maður þarf að giska á hvað fólk á að borga. Það var óvenjulegt  í dag hvað þetta var langur tími. Það voru farnar að renna á mann tvær grímur, þetta var hætt að vera fyndið eins og maður segir,“ segir Auður.

Straumur lækkaður til Fjarðaáls

Rafmagnsleysið hafði ekki síst áhrif á framleiðslufyrirtæki. Hjá Síldarvinnslunni stöðvaðist vinnsla bæði í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Álver Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði missti ekki straum enda fær það mestallt rafmagn beint frá Kárahnjúkavirkjun. Hins vegar var straumur við verksmiðjunnar lækkaður en við það hægir á framleiðslu.

Hálfhrærður osturinn í hættu

Í mjólkurstöð MS á Egilsstöðum hefst framleiðsla klukkan 6 á morgnanna og var því komin á fullt þegar rafmagnið fór. Þar er  unnið úr allt að 45 þúsund lítrum af mjólk á degi hverjum. Lúðvík Hermannsson rekstrarstjóri hjá MS á Egilsstöðum undrast hve tíðar rafmagnstruflanir eru en þær hafa oft valdið tjóni. „Í svona rafmagnsleysi þá stoppar öll framleiðsla, gerilsneyðing og ostagerð og í verstu tilfellum verður þetta altjón. Þar sem við verðum að henda öllum þeim osti sem er í framleiðsluferlinu. Við höfuð orðið að moka þeim osti upp úr tönkunum og honum er öllum fargað,“ segir Lúðvík.

Háspenna skemmdi tengivirki í Reyðarfirði

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, segir að rafmagnsleysið megi rekja til truflunar sem varð hjá Norðuráli á Grundartanga og olli miklum spennusveiflum í byggðalínu Landsnets. „Kerfisvarnirnar hjá okkur byrjuðu að skipta kerfinu upp en spennan var í raun svo há að það urðu skemmdir hjá okkur í tengivirkinu í Reyðarfirði. Þessar skemmdir juku enn á vandræðin í þessu tilviki. Í raun og veru er þetta enn ein staðfestingin á því að byggðalínan er allt of veik og það er í raun ekki ásættanlegt að truflun hjá stórnotanda á suðvesturhorninu hafi svona víðtæk áhrif,“ segir Guðmundur Ingi.

Komast ekki lengra nema leggja nýjar línur

Aðspurður um það hvort stóriðjufyrirtæki geti ekki sett upp búnað við verksmiðjur sem komi í veg fyrir áhrif út á kerfið segir Guðmundur. „Það þekki ég ekki en við erum allavega búin að setja allan þann búnað upp sem við getum með nýjustu tækni. Lengra náum við ekki öðruvísi en að styrkja kerfið.“

Dæmi eru um að raftæki hafi skemmst í spennuflöktinu en slík tjón ber að tilkynna til RARIK.