Leitin að Banksy gamla

23.06.2017 - 14:56
„Láttu mig hafa bubblu-letur og settu það á stuttermabol og skrifaðu Banksy á hann og þá erum við góðir. Þá getum við selt hann, já við getum selt hann. Ég vil ekki móðga Rob, mér finnst hann frábær listamaður.“ Þessi orð breska tónlistarmannsins Goldie hafa vakið upp sígildar hugleiðingar um það hver listamaðurinn Banksy reynist vera, en rétt nafn hans hefur verið leyndarmál síðustu tuttugu árin í breskum myndlistarheimi. Víðsjá kannaði málið. Innslagið má heyra hér í spilaranum að ofan.

Ráðgáta sem er að verða sígild

Enn og aftur fer kvitturinn á kreik. Hann er fundinn!  Hulunni hefur verið svipt upp og mystíkin sem umvefur hann hefur horfið eins og dögg fyrir sólu. Um hvern er rætt? Jú, myndlistarmanninn dularfulla Banksy en nú þykir, enn og aftur, líklegt að hann sé fundinn. Það er jú partur af leiknum að finna eða finna ekki út úr því hver þessi dularfulli breski myndlistarmaður er sem hefur spreyjað og málað á veggi víða um lönd alveg frá því að hann náði athygli fjölmiðla með veggmyndinni The Mild Wild West í Bristol árið 1997, fyrir 20 árum.

Goldie talaði af sér

Nú þykir viðtalsbrot við breska tónlistarmanninn Goldie benda til þess að ráðgátan sé að leysast. Goldie var í viðtali á dögunum við breskan kollega úr heimi tónlistarinnar, Scoobius Pip.

Þar sagði Goldie nokkurn veginn þetta:

„Láttu mig hafa bubblu-letur og settu það á stuttermabol og skrifaðu Banksy á hann og þá erum við góðir. Þá getum við selt hann, já við getum selt hann. Ég vil ekki móðga Rob, mér finnst hann frábær listamaður. Mér finnst hann hafa snúið listheiminum við. En ég held að .... [og hér kemur þögn] ... kaldhæðnin í því er ... [og svo lýkur hljóðbrotinu ].

Einhverjir vita það sanna

Auðvitað er það þannig að einhverjir vita hver Banksy er. Hér er hann nafngreindur sem Rob og þá kemur tvennt til til greina. Annað hvort er Goldie að tala um Robin Gunningham sem var skólastrákur í kaþólskum skóla í Bristol í gamla daga og hefur verið viðloðandi hina mystísku áru myndlistarmannsins alveg frá því að breska blaðið Mail on Sunday fór í djúpköfun til að kanna málið árið 2008 og benti á hann að lokum. Sá maður hefur skiljanlega aldrei neitað eða játað þeim kenningum. Rannsókn, háskólarannsókn takk fyrir, frá í fyrra þótti styrkja þá tilgátu en verk Banksy þóttu ríma ágætlega við ferðir Gunningham þessa.

„Massíft“ líkleg tilgáta?

Hin tilgátan snýst um annan Rob sem er þekktari af öðrum verkum og mun þekktari en fyrrum skólastrákurinn Gunningham. Það er tónlistarmaðurinn Robert Del Naja, nú 52 tveggja ára, stofnmeðlimur bresku hljómsveitarinnar Massive Attack. Sá Rob kom fram á sínum tíma sem grafitti listamaður í Bristol og var einn meðlima The Wild Bunch tónlistarhópsins þar í borg.

Og þessi tilgáta er áhugaverð í ljósi könnunar sem skoski blaðamaðurinn Craig Williams tók sér fyrir hendur í fyrra. Tilgáta Williams snýst um tónleikaferðalög Massive Attack en hann sér fylgni milli þess hvernig hljómsveitin ferðast um höf og lönd og hvernig ný verk eftir Banksy poppa upp. Þau fræði eru of flókin til að fara nákvæmlega út í hér, en tengingarnar eru spennandi.

Einn eða margir?

Og þá fara málin að taka á sig Shakespeare-ískan samsærisblæ. Er það virkilega svo að einn aðal forsprakki þessarar sveitar Massive Attack haldi úti gengi veggjakrotara sem samræmi stílinn og smelli myndum á veggi heimsins á meðan tónleikaferðalögin standi yfir?

En myndirnar eru margar og þær dreifast víða um álfur. Craig Williams er líka duglegur að finna tengingar. Tökum samt dæmi:

Myndir Banksy í Napoli tengir hann líka þeirri staðreynd að Robert Del Naja hafi tengsl við borgina. Faðir hans er innflytjandi þaðan og sjálfur heldur hann mikið upp á borgina og knattspyrnuliðið sögufræga þar í borg. Mynd eftir Banksy skaut upp kolli þar um það bil þegar var Del Naja á svæðinu.

Í Melbourne í Ástralíu er hægt að tengja verk við tónleika sveitarinnar en fræg verk Banksy á veggnum mikla í Palestínu er ekki hægt að tengja hljómsveitinni beint, þó að Del Naja hafi lagt stofnun lið sem hefur að markmiði að styrkja von og bjartsýni hjá Palestínumönnum um framtíð þeirra stríðshrjáðu þjóðar.

Og svona heldur rannsóknin áfram. Yfirleitt er að finna tengingar milli ferðalaga Massive Atttack eða í það minnsta Robert del Naja sem var garffiti listamaður sjálfur löngu áður en hann varð stofnmeðlimur og skapandi stjórnandi, ef svo má segja, Massive Attack.

Vörumerkið þarf að vernda

Áfram mun þó enginn viðurkenna neitt. Banksy er orðinn allt of stór listamaður, ja eða vörumerki til að fara að fella grímuna alveg.

Í greininni frá í fyrra lauk Craig Williamsson máli sínu með þessum orðum:

Kannski er ekki rétt að halda því fram að Banksy sé bara ein manneskja. Kannski höfum við hér frekar hóp sem hefur fylgt Massive Attack eftir í gegnum árin og málað veggi eftir eigin höfði. Og kannski, stýrir þeim hópi Robert Del Naja. Listamaður í mörgum greinum sem hefur farið fyrir einni af áhrifaríkustu sveitum breskrar tónlistar undanfarin ár en er um leið virtasti götu listamaður heims. Og væri ekki aldeilis svalt ?!

Hér fyrir ofan má heyra umfjöllun um málið í Víðsjá. Þar hljómar viðtalsbrotið við Goldie og lagið Teardrop með Massive Attack. 

Mynd með færslu
Guðni Tómasson
dagskrárgerðarmaður
Víðsjá
Þessi þáttur er í hlaðvarpi